mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grænlenski makrílkvótinn og tengslin við Ísland

22. maí 2014 kl. 15:20

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Royal Greenland er með 20 þúsund tonn, Polar Seafood 18 þúsund tonn og Arctic Prime Fisheries með 10 þúsund tonn

Um helmingur grænlenska makrílkvótans er í höndum grænlenskra útgerða sem hafa einhverja tengingu við Ísland. Fjögur til fimm fyrrum íslensk skip og skip að hluta í eigu Íslendinga veiða einhvern hluta af þessum kvóta. Ekki liggur þó fyrir hver kvóti á hvert skip er. Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum. 

Stór hluti kvótans kemur í hlut Royal Greenland og dótturfélaga, alls 20 þúsund tonn. Þar á eftir kemur Polar Seafood samstæðan með alls 18 þúsund tonn. Í þriðja sæti er Arctic Prime Fisheries með 10 þúsund tonn. 

Polar Seafood á tvo þriðju hluta í Polar Pelagic á móti Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Polar Pelagic gerir út vinnsluskipið Polar Amaroq. Þá hefur Polar Seafood möguleika á því að leigja skip til að veiða 3 þúsund tonn af makrílkvóta samstæðunnar. 

Royal Greenland Pelagic, sem keypti Guðmund VE og Þorstein ÞH í vetur, er í eigu Royal Greenland og Ísfélagsins í Vestmannaeyjum að litlum hluta. 

Arctic Prime Fisheries er að hluta til í eigu Brims. Skálaberg RE hefur verið selt þessu félagi. Ekki liggja fyrir staðfestar upplýsingar um hvort Brimnes RE fari einnig til Grænlands. 

Northern Seafood, sem fær 3 þúsund tonna kvóta, gerir út togarann Júní (gamla Venus HF). Einn af eigendum Northern Seafood er Íslendingurinn Benedikt Sverrisson.  

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.