fimmtudagur, 13. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grænlenskir semja um grásleppuhrogn

15. apríl 2014 kl. 11:49

Grásleppa skorin. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Verð til sjómanna er töluvert lægra en á Íslandi.

Samtök grænlenskra sjómanna og veiðimanna (KNAPK) og stórfyrirtækið Royal Greenland hafa náð samkomulagi um verð á blautum grásleppuhrognum til sjómanna á vertíðinni í ár. Lágmarksverð er ákveðið 18 danskar krónur kílóið eða 374 íslenskar á núverandi gengi. Að auki er gert ráð fyrir bónusgreiðslu ef markaðsverðið fyrir hrognin verður hagstætt.

Niðurstaðan er verðlækkun til sjómanna frá fyrra ári en ef bónusgreiðslan nær fram að ganga er verið að semja um óbreytt verð milli ára, að sögn Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda.

Til samanburðar má nefna að verðið sem boðið er íslenskum sjómönnum fyrir blaut hrogn er 500 krónur kílóið þannig að það er töluvert hærra en grænlenskir starfsbræður þeirra fá. Örn sagði að munurinn lægi í því að dýrara væri salta hrognin og búa til útflutnings í Grænlandi en á Íslandi vegna hærri launa og hærri annars kostnaðar.

Örn benti á að meðalútflutningsverð á grásleppuhrognum frá Grænlandið árið 2013 hefði verið 750 evrur á tunnuna samanborið við 642 evrur á tunnuna frá Íslandi. Örn taldi þetta sýna að hægt væri að  ná betra verði fyrir grásleppuhrognin í útflutningi frá Íslandi sem aftur gæfi aukið svigrúm til þess að hækka verðið til sjómanna.