mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grásleppan hreinsi grálúsuga

22. janúar 2014 kl. 14:48

Grásleppa

Hrognkelsi eru nýjasta vopnið gegn laxalús, sem er víða mikill skaðvaldur í fiskeldi.

Laxalús er eitt af erfiðustu og kostnaðarsömustu vandamálum í laxeldi í heiminum. Fisikeldisfyrirtæki verja gríðarlegum fjármunum árlega til þess að stemma stigu við lúsinni með misjöfnum árangri. Ein leiðin er að drepa lúsina með lyfjum en lyfjagjöf í matvælaframleiðslu þykir aldrei sérlega góð til afspurnar og hefur marga aðra ókosti.  

Önnur leið er sú að láta ákveðnar fisktegundir, svokallaða „hreinsifiska“, í laxabúrin innan um laxinn en þessir fiskar éta snýkjudýrin af laxinum. Þetta er gert í fiskeldi m.a. í Kanada, Noregi og Skotlandi. Gallinn við þessar „hreinsifiska“ er sá að þeir þola yfirleitt illa sjávarkulda, sem gerir þá ónothæfa t.d. í Norður-Noregi, og það tekur langan tíma að ala þá upp í hæfilega stærð. 

Nýlega hefur athygli eldismanna beinst að hrognkelsinu sem vænlegum kosti í baráttunni við laxalúsina. Komið hefur í ljós að hrognkelsið er sólgið í laxalús og er auk þess mun harðgerðari fiskur en hinar hefðbundnu hreinsifiskategundir og þolir kaldari sjó betur en þær. Þá hafa rannsóknir leitt í ljós að hrognkelsið vex mun hraðar og hægt er að ala það upp í heppilega stærð (5-6 cm) á innan við 4-5 mánuðum samanborið við eitt og hálft ár hjá hinum tegundunum. Auk þess er hægt að nota hrognkelsið í þéttara eldi og það sýkist síður. 

Laxeldisfyrirtæki og rannsóknastofnanir víða um heim einbeita sér nú að frekari rannsóknum á hrognkelsinu og hafa tröllatrú á því í baráttunni við laxalúsina.

Frá þessu er skýrt á vefnum Fish site.