föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grásleppuhrogn fyrir 1,5 milljarða

3. september 2009 kl. 15:00

Heildarverðmæti grásleppuhrogna í ár er um 67% hærra en á vertíðinni í fyrra samkvæmt samantekt Landssambands smábátaeigenda. Frá þessu er greint í Fiskifréttum er fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Grásleppuvertíðina í ár skilaði 11.518 tunnum af söltuðum hrognum. Mestu var landað á Drangsnesi eða sem jafngildir 1.373 tunnum. ,,Ég veit ekki til þess að svo miklu hafi verið landað á Drangsnesi fyrr eða á nokkrum öðrum löndunarstað,“ sagði Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, í samtali við Fiskifréttir. Annar stærsti löndunarstaðurinn í ár er Stykkishólmur með 1.145 tunnur.

Örn áætlar að 11.518 tunnur af grásleppuhrognum gefi grásleppukörlum um 1,5 milljarða króna í aðra hönd sem er um 67% aukning frá verðmætum á vertíðinni í fyrra. Hún skilaði um 885 milljónum króna fyrir 11.660 tunnur. ,,Á sama tíma og verð á þorsk- og ýsuafurðum og fleiri tegundum hefur lækkað í erlendri mynt þá hafa söltuð grásleppuhrogn hækkað um 9% í evrum. Ástæðan fyrir þessari hækkun er að takmarkanir hafa verið á veiðunum sem leitt hafa til að framboð er minna en eftirspurn. Þá keyrði það verðið einnig upp að veiðar á Nýfundnalandi brugðust sem leiddi til þess að veiðin í ár var minni en stefnt var að. Þetta hefur líka leitt til verðhækkunar á kavíar,“ sagði Örn.

Veiðum er nú lokið alls staðar og áætlaði Örn að heildarveiðin næmi um 23 þúsund tunnum, þ.e. Íslendingar með 11.500 tunnur, Grænlendingar með 8 þúsund, Norðmenn með tæpar 3 þúsund og Nýfundlendingar með innan við þúsund tunnur. Á viðræðufundi veiðiþjóða fyrr á árinu var stefnt að því að heildarveiðin yrði um 28 þúsund tunnur.

  Veiðisvæði grásleppu hér við land eru 7 fyrir utan innanverðan Breiðafjörð. Leyfilegt var að stunda grásleppuveiðar samfellt í 62 daga á hverju svæði en veiðitíminn er ekki sá sami alls staðar. Veiðar hófust í byrjun mars á fyrsta svæðinu en lauk 12. ágúst á því síðasta. Fjöldi grásleppuleyfa á vertíðinni var 279, sem er 50 leyfum fleira en á vertíðinni 2008 og 135 leyfum fleira en 2007.

Sjá nánar í Fiskfréttum þar sem meðal annars er birtur listi yfir hve miklu var landað af grásleppuhrognum á hverjum og einum löndunarstað í ár.