fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grásleppukarlar á Íslandi veiddu mest

28. október 2009 kl. 12:45

Grásleppuveiðar við Norður-Atlantshaf á þessu ári skiluðu samtals 23 þúsund tunnum af grásleppuhrognum. Grásleppukarlar á Íslandi voru stórtækastir með 11.500 tunnur, þar á eftir komu Grænlendingar með 7.000 tunnur, Norðmenn söltuðu niður í 2.800 tunnur og afrakstur sjómanna á Nýfundnalandi var aðeins eitt þúsund tunnur.

Allar þjóðirnar voru með takmarkanir á veiðum sínum til þess að hafa hemil á hrognaframboði inn á markaðinn. Hérlendis takmarkast veiðarnar við 50 daga en þeim var fjölgað um 12 á vertíðinni. Grænlendingar binda veiðarnar við atvinnumenn, Norðmenn stjórna með hámarksafla á bát og á Nýfundnalandi eru veiðar aðeins leyfðar 14 daga á hvern bát.

Nýfundnaland hefur alla jafna verið meðal stærstu grásleppuveiðiþjóða en í ár hrundi aflinn algjörlega eins og áðurnefndar veiðitölur vitna um.

Þessar upplýsingar komu fram í ræðu Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda á aðalfundi samtakanna nýverið. Þar var einnig upplýst 279 bátar hefðu stundað veiðarnar hérlendis sem var 50 leyfum meira en í fyrra.