miðvikudagur, 14. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grásleppuráðgjöfin hækkar um 74 prósent

31. mars 2021 kl. 08:15

Hrognkelsi. MYND/Hafrannsóknastofnun

Hafrannsóknastofnun leggur til að veiða megi 9040 tonn af grásleppu á þessu ári. Stofnmælingin í ár varð sú hæsta frá upphafi mælinga árið 1985.

Hafrannsóknastofnun hefur gefið út ráðgjöf fyrir grásleppuveiði ársins. Stofnunin ráðleggur „að veiðar á grásleppu fiskveiðiárið 2020/2021 verði ekki meiri en 9040 tonn. Er það um 74% hækkun milli ára.“

Jafnframt leggur stofnunin til að upphafsaflamark fiskveiðiárið 2021-22 verði 3174 tonn.

„Ráðgjöfin byggir að mestu á stofnvístölu úr stofnmælingu botnfiska í mars 2021 en hún var sú hæsta frá upphafi mælinga 1985. Stofnvísitölur hrognkelsa sveiflast milli ára sem endurspeglar að hluta til óvissu í mælingunum. Vegna þessa vegur stofnvísitala sama árs 70% á móti 30% vægi vísitölu fyrra árs við útreikning ráðlagðs hámarksafla.“

Þá segir greinir stofnunin frá því að þessi ráðgjöf sé gefin samkvæmt nýrri ráðgjafareglu fyrir grásleppu sem kynnt var á árinu. Hún miðar við vísitölu veiðihlutfalls (Fproxy) 0.75.

„Stofnvísitala hrognkelsa hefur sveiflast mikið og því er mikilvægt að afli hvers árs taki mið af stofnstærð sama árs frekar en ársins á undan,“ segir í greinargerð stofnunarinnar. „Vegna óvissu í mælingunum er tekið tillit til vísitölu fyrra árs (30% vægi) á móti nýrri mælingu (70% vægi) við útreikning ráðlagðs hámarksafla. Þannig er ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar tvískipt: Fyrir vertíðina 2021 er upphafsaflamark reiknað sem lífmassavísitala grásleppu í SMB árið 2020 margfölduð með 0.225 (=0.75*0.3). Við það bætist vísitalan í SMB 2021 margfölduð með 0.525. Ráðgjöf um leyfilegan hámarksafla er gefin út að lokinni stofnmælingu í mars.“