mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grásleppuveiðidögum fækkað úr 50 í 20

7. febrúar 2013 kl. 11:08

Grásleppa

Gæti breyst eftir endanlega ráðgjöf Hafró að loknu vorralli.

Undirrituð hefur verið reglugerð um stjórn hrognkelsaveiða 2013 í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Megin breytingin frá reglugerð um stjórn hrognkelsaveiða 2012 er að nú eru grásleppuveiðileyfi hvers báts gefin út til 20 samfelldra veiðidaga í stað 50 á síðasta ári. 

Þó er tekið fram að endanleg ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar um fjölda veiðidaga og magn birtist ekki fyrr en 20. mars n.k. og því geti þessi tala breyst.

Að fenginni tillögu Landssambands smábátaeigenda hefur verið ákveðið að grásleppuvertíðin hefjist ekki fyrr en 20. mars á fyrstu svæðum þar sem heimilt er að hefja veiðar.

Að hámarki er hverjum bát nú heimilt að hafa 200 net í sjó og er það breyting frá fyrri árum þar sem hámarksfjöldi neta á hvern lögskráðan mann var 100 en á bát samtals 300.