þriðjudagur, 2. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grásleppuvertíðin fer hægt af stað

Guðjón Guðmundsson
28. mars 2020 kl. 09:00

Verð á afurðum var afar gott á vertíðinni í fyrra en það virðist hafa gefið nokkuð eftir. Mynd/Þorgeir Baldursson

Lægri verð en í upphafi vertíðar í fyrra.

Grásleppuvertíð sem hófst 10. mars síðastliðinn fer heldur hægt af stað. Vertíðin hófst 20. mars í fyrra og þá voru 45 bátar búnir að tilkynna sig til veiða, en við upphaf vertíðar nú voru þeir einungis 10.  Það sem af er vertíð hafa 32 bátar hafið veiðar. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, telur víst að þeim eigi eftir að fjölga hratt þegar nær líður mánaðarmótum.

Vertíðin er með öðru sniði nú en áður. Nýlunda er að veiðileyfin eru ekki bundin við svæði heldur gilda fyrir allt landið.  Veiðitímabilið nú er frá 10. mars til 12. ágúst.  Í fyrra voru hámarks róðradagar 44 talsins. Upphaflegur dagafjöldi sem gefinn er út með leyfunum núna er 25 en um mánaðamótin verður gefið út hve endanlegur dagafjöldi verður. Sömuleiðis verður þá gefið út hve mikið má veiða.   Heildarfjöldi leyfðra neta er óbreyttur milli ára.  Í fyrra máttu líða fjórir sólarhringar milli vitjana en sá tími er nú styttur niður í þrjá sólarhringa. Fiskistofa tekur hins vegar tilliti til þess ef ekki er hægt að vitja neta innan tilskilins frests ef illa viðrar til róðra.

Hafrannsóknastofnun gefur út leyfilegan heildarafla nú um mánaðamótin en í fyrra var leyfilegur heildarafli 4.805 tonn og alls veiddust 4.950 tonn.

 Lægra verð en í fyrra

„Það hefur dregið úr mönnum að hefja vertíðina strax af fullum krafti að verð á grásleppu er töluvert lægra en það var í fyrra. Meðalverðið í fyrra endaði í 332 krónum kílóið. Nú hafa verið seld rúm 40 tonn á fiskmörkuðum og meðalverðið er 220 krónur kílóið. Meðalverð á fiskmörkuðum um svipað leyti í fyrra var 284 krónur.“

Örn segir að þess sé vænst að MSC-vottun fáist að nýju fyrir grásleppuveiðarnar en talsverð óvissa er með markaðshorfur á frystri grásleppu sem hefur að langmestu leyti verið seld til Kína. Þessi upphafsverð á fiskmörkuðum endurspegli sennilega þessa óvissu.

Hann telur að markaður fyrir grásleppuhrogn sé nokkuð heilbrigður. Veiðarnar í fyrra voru á pari við eftirspurnina. Í upphafi þessarar vertíðar hefur verið töluverður meðafli af þorski og það gæti einnig haft þau áhrif að sumir vilji bíða með að hefja veiðar. Þeir sem ekki eiga þorskkvóta hafa þurft að landa honum sem vs-afla en óhægt mun vera um vik að leigja kvóta.

„Verð á þorski sem veiðist í grásleppunet hefur reyndar ekki verið hátt. Það er núna í kringum 180 krónur kílóið,“ segir Örn að lokum.