mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grásleppuvertíðin lengd um tólf daga

17. apríl 2018 kl. 14:53

Á grásleppuveiðum. MYND/ÞORGEIR BALDURSSON

Fiskistofa segir von á reglugerð úr Atvinnuvegaráðuneytinu sem lengir grásleppuvertíðina í ár úr 32 dögum í 44

„Von er á reglugerð frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem leyfi til grásleppuveiða eru lengd úr 32 dögum í 44,“ segir í tilkynningu á vef Fiskistofu.

Landssamband smábátaeigenda segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hafa undirritað reglugerðina og hún verði birt í Stjórnartíðindum á morgun, 18. apríl.

Fyrri reglugerð heimilaði hverjum bát veiðar í einungis 32 daga og ríkti töluverð óánægja með það meðal smábátasjómanna enda voru efasemdir um að sá dagafjöldi myndi duga til að hægt yrði að veiða það magn sem ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sagði til um.

Hafrannsóknastofnun gaf út ráðgjöf sína fyrir grásleppu fjórða apríl síðastliðinn. Þar lagði stofnunin til að heildaraflamark fiskveiðiárið 2017 til 2018 verði ekki meira en 5.487 tonn.

Veiðitímabil grásleppu hefur verið misjafnlega langt undanfarin ár. Þannig voru veiðar leyfðar í 50 daga árin 2011 og 2012, 32 daga árin 2013 til 2016 og 46 daga árið 2017.

Á síðasta ári tóku 243 bátar þátt í veiðunum og veiddust það ár 4.565 tonn.