laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Greiða einni evru meira á kíló fyrir Íslandsgæði á saltfiskinum

25. febrúar 2013 kl. 09:17

Saltfiskur

Norðmenn verða af tæpum 3 milljörðum ISK á ári vegna misjafnra gæða á saltfiski sem fluttur er út til Portúgal

 

Portúgal er mikilvægasti markaðurinn fyrir norskan saltfisk. Hann gæti þó gefið enn meira af sér því Norðmenn glata miklum verðmætum vegna misjafnra gæða á saltfiskinum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá rannsóknastofnuninni Nofima.

Í skýrslunni segir að ef norski saltfiskurinn hefði verið að sömu gæðum og íslenski saltfiskurinn hefði útflutningsverðmætið verið 120 til 130 milljónum norskra króna hærra á ári, eða um 2,7 til 2,9 milljörðum ISK. Þetta samsvarar því að hægt hefði verið að greiða 4,5 norskum krónum hærra á hvert kíló fyrir þorsk upp úr sjó (90 ISK).

Árið 2011 greiddu Portúgalir 1,06 evrum meira á kíló (178 ISK) fyrir saltfisk að Íslandsgæðum en fyrir norskan saltfisk. Skýrsluhöfundar komast að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að stutt sé á miðin og að þorskstofninn við Noreg sé í góðu ástandi sé því mjög ábótavant hvernig fiskurinn sé meðhöndlaður um borð. Dæmi séu um illa blóðgaðan fisk, marinn fisk og fleiri ágalla. Þessi gallar komi fram í lokaafurðinni sem leiði til verðfellingar. Reyndar séu einnig dæmi um að fiskurinn fari illa í vinnslunni.

Í fyrri rannsóknum hefur komð fram að neta- og dragnótaveiðar skila lélegasta hráefninu, sérstaklega þegar mikill afli kemur í snurvoðina. Í skýrslunni er bent á að mikil hefð sé fyrir netaveiðum í Noregi eins og var hér á Íslandi á árum áður. Hins vegar hafi Íslendingar snúið sér að línuveiðum í vaxandi mæli á kostnað netaveiðanna.

Þá er það nefnt að Íslendingar geri sér glögga grein fyrir því að endanlegt verðmæti fisksins verði ekki til á bryggjusporðinum heldur á mörkuðum erlendis. Ennfremur að vinnslan, sem í mörgum tilvikum eigi útgerðina, geri mikla kröfur um gæði aflans þegar hann kemur í land. Er útgerð snurvoðarbáta nefnd sérstaklega í þessu sambandi.

Sjá nánar http://www.nofima.no/nyhet/2013/02/taper-verdier-paa-variabel-kvalitet