mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Greinir tegund og stærð fiska sjálfvirkt

4. september 2018 kl. 15:00

SEASCANN-búnaður Skagans 3X. MYND/AÐSEND

Skaginn 3X hlýtur ESB-styrk til að þróa áfram byltingarkenndan myndgreiningarbúnað.

SEASCANN-búnaðurinn gefur möguleika á að senda yfirvöldum nákvæmar upplýsingar um afla í rauntíma ásamt því að auðvelda alla flokkun um borð og ýta undir sjálfbærar veiðar.

„Maður getur alveg séð fyrir sér að Hafró geti fengið gögn í stóru magni,“ segir Jón Birgir Gunnarsson, markaðsstjóri hjá Skaganum 3X. „Menn geti þá farið að skoða ástandið á stofnunum út frá rauntímagögnum.“

Einnig verði mögulegt að veita Fiskistofu aðgang að gögnum til að auðvelda allt eftirlit, að því gefnu að þeir sem nota búnaðinn séu því samþykkir. Jón Birgir segir eigendur búnaðarins hljóta að hafa fulla stjórn á því hvort og hvert upplýsingarnar séu sendar hverju sinni.

Búnaðurinn sem hér um ræðir nefnist SEASCANN og er sjálfvirkur tegunda- og stærðagreinir sem Skaginn 3X er að þróa í beinu framhaldi af svipuðum búnaði sem nú þegar hefur verið settur um borð í fimm ný íslensk fiskiskip.

Skaginn 3X hefur hlotið króna styrk úr H2020-áætlun Evrópusambandinu til að þróa búnaðinn, byltingarkenndarkenndan myndgreiningarbúnað sem tegundargreinir og stærðarflokkar fisk með sjálfvirkum hætti um borð í veiðiskipum. Framlag Evrópusambandsins verður 50 þúsund evrur, eða ríflega sex milljónir króna.

Í tilkynningu frá Skaganum 3X segir að þessi styrkur sé afar eftirsóttur og samkeppnin í ár hafi verið gríðarlega hörð. Um það bil 1300 evrópsk fyrirtæki hafi um styrkinn en einungis 64 styrkir verið veittir fyrir þær hugmyndir sem þóttu vera framúrskarandi.

Komið í fimm íslensk skip
„Þetta er framhald af því sem komið er af stað í Málmey og Drangey hjá FISK-Seafood og systurnar þrjár hjá HB Granda, Engey, Viðey og Akurey,“ segir Jón Birgir. „Þessi styrkur gefur okkur tækifæri til að taka það konsept lengra, búa til gagnatengingar og vinna meira með gögnin.“

Hugmyndin er að hægt verði að senda upplýsingar jafnóðum til útgerðarinnar í landi.

„Útgerðin geti þá nýtt sér það til að stýra vinnslunni í landi og skoða hvort kaupa þurfi eitthvað á markaði eða selja eitthvað. Menn geti þá verið fljótari að taka allar ákvarðanir.“

Hann segir útgerðina hafa kallað eftir aukinni sjálfvirkni við flokkun aflans um borð. Með þessum búnaði, sem nú þegar er kominn í fimm íslensk skip, verði mannskapurinn ekki eins bundinn við að flokka og geti þá einbeitt sér að því að blóðga og slægja til að fá meiri gæði í fiskinn.

„Hún er þarna að raungerast hjá okkur, fjórða iðnbyltingin. Hún er komin út á sjó og er á fullri ferð,“ segir Jón Birgir.

Framtíðarsýn
Þegar fram líða stundir geta menn séð fyrir sér enn frekari þróun í þessa átt. Eitt af næstu skrefum geti orðið frekari þróun á búnaðinum þannig að hann geti greint, til viðbótar við tegund og stærð fiskanna, svokallaðan k-factor eða holdastuðul.

„Það er bara hversu magur fiskurinn er. Ef þú getur séð rúmmálið á honum eða þyngdina miðað við lengd þá geturðu séð hversu holdmikill hann er. Það yrði mikill munur að sjá þetta, ef þú ert til dæmis á ákveðnu veiðisvæði og sérð að fiskurinn þar er alltaf frekar magur miðað við næsta svæði þar sem hann er kannski holdmikill og fínn.“

Ef horft er lengra fram í framtíðina má sjá fyrir sér að á fiskmarkaði geti fólk hreinlega séð mynd af fiskinum sem það er að kaupa.

„Þetta getur líka aukið verðgildi aflans. En við tökum þetta bara í skrefum, það er ekki hægt að gera allt í einu. Það er samt svo hröð þróun í þessu öllu. Í uppsjávarverksmiðjunum er til dæmis verið að pakka kannski 600 tonnum á sólarhring og tekin mynd af hverjum einasta fiski. Það er ekkert smá magn af myndum.“

Hann segir Skagann 3X hafa verið í sambandi við Hafrannsóknastofnun um þessi mál.

„Það hefur verið skoðað hvernig þetta myndi nýtast þeim og hvort þeir myndu jafnvel vilja taka þátt í svona verkefni. Það hafa verið alls konar þreifingar en ekkert fast í hendi svo sem.“