laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gríðarlegt veiðarfæratjón hjá grásleppukörlum

7. apríl 2009 kl. 10:24

Foráttubrim í síðustu viku olli gífurlegu tjóni á veiðarfærum grásleppukarla á N- og NA-landi. Aðkoman hjá grásleppuveiðimönnumum nýliðna helgi þegar loks var hægt að vitja netanna eftir langvinna ótíð var ömurleg.  Þrátt fyrir að netin lægju á meira en 30 faðma dýpi sluppu þau ekki. 

Þetta kemur fram á vef Landssambands smábátaeigenda (LS). Hafrótið náði þar niður og þyrlaði grjóti og öðrum ófögnuði af botninum og lamdi í sundur. Einnig hefði fiskur lent í netunum og vafið þau þannig upp að brimið vann enn betur á þeim og gerði þau með öllu ónothæf.

„Það er grátlegt að vera kominn í land með ónýt net eftir aðeins 3 vikna notkun.   Góð afkoma síðastliðins árs er fokin út í veður og vind í bókstaflegri merkingu.   Það er harla ólíklegt að þau örfáu net sem sluppu geri mönnum kleift að jafna þann reikning.            

Ætli þessi bræla skráist ekki í sögubækur sem „stóra milljónabrælan“.  Aldrei þessu vant blasti við okkur nægur markaður og hærri verð en menn hafa nokkru sinni séð,” segir sagði Einar Sigurðsson grásleppukarl á Raufarhöfn á vef LS.

Að sögn Gunnars Gunnarssonar á Húsavík eru grásleppuveiðimenn þar sammála um að fara þarf allt aftur til ársins 1984, aldarfjórðung, til að finna hamfarir sem þessar.