laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gríðarlegur tekjumissir vegna ólöglegra veiða

9. júlí 2008 kl. 12:39

Ný skýrsla sem breska ríkisstjórnin hefur látið taka saman leiðir í ljós að tjón vegna ólöglegra veiða í heimshöfunum er talið nema 23 milljörðum bandaríkjadala eða jafnvirði tæplega 1800 milljarða íslenskra króna. Það er tvöfalt hærri fjárhæð en áður hefur verið nefnd í þessu sambandi.

Gareth Tomas, verslunar- og þróunarmálaráðherra Bretlands, sagði í tilefni af birtingu skýrslunnar að ólöglegar veiðar kæmu harðast niður á þróunarlöndum og hefðu viðvarandi áhrif á efnahag þessara ríkja.

,,Mörg þróunarlönd hafa meiri tekjur af fiskútflutningi en af landbúnaðarvörum og mega síst við því að erlendir togarar stundi ofveiði á fiskistofnum þeirra úti fyrir ströndinni. Ríkisstjórnir þessara landa gera ekki nóg til þess að vernda auðlindir sínar í hafinu. Ríki eins og Namibía, Ísland og Nýja-Sjáland hafa skilning á þessu og tryggja að sjávarauðlindirnar nýtist á sem bestan hátt en því er ekki að heilsa í mörgum þróunarlöndum,“ sagði ráðherrann.

Frá þessu er skýrt í sjávarútvegsritinu World Fishing.