fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gríðarlegur vöxtur í sölu uppsjávarfisks

27. ágúst 2015 kl. 09:41

Flokkun á makríl í verksmiðjunni í Færeyjum.

Færeyingar fluttu út sjávarafurðir fyrir um 53 milljarða á fyrri helmingi ársins

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum jókst um 230 milljóir króna (4,6 milljarða ISK) á fyrri árshelmingi 2015, eða um 8% samanborið við sama tíma í fyrra, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar í Færeyjum. Alls nam útflutningur sjávarafurða 2.662 milljónum á tímabilinu (um 53 milljörðum ISK) og eru það tæp 97% af vöruútflutningi Færeyinga. 

Gríðarlegur vöxtur varð í útflutningi á afurðum uppsjávarfisks, enda hafa Færeyingar óskastöðu í sölu uppsjávarfisks til Rússlands. Verðmæti uppsjávarfisks tvöfaldaðist en magnið jókst um rúm 50%. Alls voru flutt út tæp 87 þúsund tonn af uppsjávarfiski fyrir tæpar 530 milljónir króna (10,5 milljarða ISK). 

Botnfiskurinn skilaði einnig meiri útflutningsverðmætum í ár en í fyrra, það jókst um 20%, en magnið minnkaði um 5%.

Í fyrsta sinn í langan tíma varð ekki aukning í útflutningi á færeyskum eldisfiski. Flutt voru út rúm 26 þúsund tonn, einkum og aðallega eldislax, fyrir 1.216 milljónir króna (rúma 24 milljarða ISK). Verðmætin drógust saman um 9% en magnið um 11%. Eldisfiskurinn er þó sem fyrr langmikilvægasta sjávarafurð Færeyinga og nam hann um 43% af heildarútflutningi sjávarafurða á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra var þetta hlutfall hins vegar 50%.