sunnudagur, 21. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gríðarmikill laxadauði í Noregi veldur áhyggjum

Guðsteinn Bjarnason
25. maí 2018 kl. 15:00

Laxeldiskvíar í norskum firði. MYND/BH

53 milljónir laxa drápust á síðasta ári. Per Sandberg, sjávarútvegsráðherra Noregs, segir það vera brýnasta verkefni norsks laxeldis að stemma stigu við laxadauða. Á síðasta ári settu norsk fyrirtæki sér metnaðarfull markmið í laxeldi.

Á síðasta ári drápust 53 milljónir laxa í norsku fiskeldi. Tapið af þessu fyrir norsk laxeldisfyrirtæki er talið nema 14 milljörðum norskra króna, eða nærri 182 milljörðum íslenskra króna.

Per Sandberg sjávarútvegsráðherra segir þetta ólíðandi. Baráttan gegn laxadauðanum sé mikilvægasta verkefnið í ráðuneyti sínu.

Þetta sagði ráðherrann í viðtali við norska Fiskeribladet. Þar segir hann einnig að takist mönnum að draga verulega úr laxadauðanum sé það ekki bara gott fyrir laxinn, heldur líka fyrir eldisfyrirtækin enda sé laxadauðinn verulegt tekjutap fyrir þau. Þar að auki sé þetta ekki gott fyrir orðspor laxeldis í Noregi.

Ástandið er ekkert að skána, því á fyrstu þremur mánuðum þessa árs drápust nærri 14 milljónir laxa og urriða í norsku fiskeldi, að því er fram kemur í Fiskeribladet. Þetta eru ríflega 30 prósent fleiri fiskar en drápust á sama tímabili á síðasta ári.

Arnarlax einnig í vanda
Íslenska laxeldisfyrirtækið Arnarlax, sem er að hluta í eigu norska fyrirtækisins SalMar, hefur ekki farið varhluta af þessu vandamáli því fyrr á þessu ári drápust tugir þúsunda laxa í kvíum fyrirtækisins í Tálknafirði.

Matvælastofnun skýrði frá því seint í mars að hjá Arnarlaxi hafi rúmlega 53 þúsund laxar drepist í sjókví sem skemmdist í óveðri. Þetta var ríflega fjórðungur allra fiska sem voru í kvínni, og taldi Matvælastofnun líklegt að töluvert margir fiskar ættu þá eftir að drepast.

Í fyrstu ársfjórðungsskýrslu SalMar, sem kom út í síðustu viku, segir að laxadauðinn hjá Arnarlaxi hafi verið óvenju mikill þetta árið og hefur fyrir vikið endurskoðað áætlanir ársins. Nú er gert ráð fyrir því að 8.000 tonnum af fiski verði slátrað, en áður hljóðaði áætlun ársins upp á 11 þúsund tonn. Laxadauðinn er í skýrslunni rakinn bæði til mikils sjávarkulda og þess að fiskarnir hafi illa þolað flutning yfir í aðrar sjókvíar úr skemmdu kvínni.

Metnaðarfull markmið

Samtök norskra iðnfyrirtækja sendu á síðasta ári frá sér skýrslu sem á að vera vegvísir fyrir fiskeldi þar í landi, einkum þó laxeldi. Þar setja fyrirtækin sér metnaðarfull markmið og snúast þau markmið meðal annars um að útrýma öllum lúsafaraldri og koma í veg fyrir allar slysasleppingar. Enn fremur setja fyrirtækin sér það markmið að bæta allan aðbúnað fisksins.

Norskt laxeldi hefur löngum átt við erfiðleika að stríða, einkum hefur gengið illa að koma í veg fyrir slysasleppingar og losna við lúsafaraldurinn. Linnulitlar tilraunir til að finna lausnir á þessu hafa ekki skilað nógu góðum árangri til þessa.

Stefnt er að því að fyrir árið 2030 verði norsk laxeldisfyrirtæki búin að finna tæknilausnir sem komi í veg fyrir bæði lúsafaraldur og slysasleppingar ásamt því að huga sérstaklega að því að gera vöruna verðmætari. Einnig er stefnt að því að fimmfalda útflutninginn til ársins 2050, og fyrir árið 2030 verði útflutningsverðmætið komið upp yfir 200 milljarða norskra króna.

Til að hrinda þessum markmiðum í framkvæmd leggja samtökin til að gripið verði til tímasettra aðgerða sem eigi að virka sem beinir hvatar fyrir eldisfyrirtækin.

Tímasettar aðgerðir
Til að koma í veg fyrir slysasleppingar og erfðablöndun er til dæmis lagt til að settar verði reglur um að merkja þurfi allan lax sem alinn er í kvíum sem ekki teljast öruggar, og þetta verði gert fyrir árið 2024. Þannig verði alltaf hægt að rekja úr hvaða kví fiskar sem sleppa hafa komið. Þessar merkingar eiga einnig að auðvelda mönnum að endurheimta sloppinn fisk, auk þess sem þær eiga að tryggja að viðurlög verði lögð á réttu eldisfyrirtækin.

Þá leggja samtökin til að árið 2022 verði byrjað að leggja sérstakar álögur á eldisstöðvar þar sem lús er að finna. Strax á árinu 2018 verði byrjað að setja saman óháða sérfræðingahópa sem leggja mat á fjölda lúsa, og frá og með árinu 2027 verði gerðar strangar kröfur um að eldiskvíar verði alfarið lausar við lús.

Einnig er lagt til að frá og með árinu 2022 verði allar eldisstöðvar í Noregi komnar með ASC-vottun eða sambærilega vottun, en ASC eru samtök sem þróað hafa umhverfisstaðla sambærilega MSC-stöðlum fyrir fiskveiðar.