laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Grænbók ESB: Ekkert hald í hlutfallslega stöðugleikanum

24. apríl 2009 kl. 11:39

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kemst að því í svokallaðri Grænbók um hina sameiginlegu sjávarútvegsstsefnu sambandsins að reglan um hlutfallslegan stöðugleika (e. relative stability) tryggi ekki lengur að fiskveiðiréttindi haldist hjá viðkomandi veiðiþjóð. Grænbókin var formlega kynnt á miðvikudag.

Þeir sem aðhyllast aðild Íslands að ESB hafa gjarnan vísað til reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika sem tryggingu fyrir því að Ísland haldi öllum sínum veiðiréttindum kæmi til aðildar að Evrópusambandinu. Nú hefur framkvæmdastjórn ESB viðurkennt að kvótahopp og fleiri stjórnunaraðgerðir einstakra aðildarríkja hafi komið í veg fyrir að reglan haldi.

Joe Borg, fiskimálastjóri ESB, sagði í ræðu sinni um Grænbókina að endurskoða þyrfti inntak reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika, þar sem hún hefði fremur leitt til þess að einstök ríki hefðu sett eigin hagsmuni framar hagsmunum heildarinnar.

Í Grænbókinni eru þrjár leiðir einkum ræddar sem lausn á vanda hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB:

• Taka upp framseljanlegar veiðiheimildir (fishing rights) • Þróa regluna um hlutfallslegan stöðugleika með gerð samninga sem taka tillit til raunverulegra þarfa veiðiskipa aðildarríkja • Taka upp 12 mílna fiskveiðilögsögu sem væri einungis fyrir skip aðildarríkis

Frá þessu er skýrt á vef LÍÚ. Þar er einnig unnt að lesa skýrsluna í heild á ensku og íslenska þýðingu á kaflanum um hlutfallslegan stöðugleika. Sjá HÉR