föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gullár í norsku laxeldi

2. september 2009 kl. 12:01

Ævintýralegur uppgangur í norsku laxeldi virðist engan enda ætla að taka. Gert er ráð fyrir að slátrað verði 840 þúsund tonnum af norskum eldislaxi á þessu ári sem er 11% aukning frá árinu á undan. Til samanburðar má nefna að úthlutaður kvóti í íslenskri lögsögu á nýbyrjuðu fiskveiðiári er 260 þúsund tonn í þorskígildum talið.

Horfur í norsku laxeldi hafa aldrei verið betri. Aukin eftirspurn stafar ekki síst af því að sjúkdómar hafa herjað á laxeldi í Chile sem leitt hefur til hruns í framleiðslunni, en landið er afar stór útflytjandi á laxaafurðum.

Þá hefur veiking norsku krónunnar gagnvart dollar og evru einnig hjálpað norskum eldismönnum. Verð á laxaafurðum til Evrópusambandsins hefur hækkað um 39% mælt í norskum krónum og um 23% mælt í evrum. Fyrstu sjö mánuði þessa árs varð 25% verðhækkun að meðaltali á norskum eldislaxi en magnaukning í útflutningi var 3% á sama tíma. Sjávarútvegsvefurinn IntraFish skýrir frá þessu.