fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gullhólminn er öflugt verkfæri

Guðjón Guðmundsson
30. maí 2019 kl. 11:00

Gullhólminn á siglingu. Báturinn kom á árinu 2017 og hefur fiskað vel. MYND/ÞORGEIR BALDURSSON.

Sigurður Ágústsson framkvæmdastjóri segir nýja Gullhólmann öflugt verkfæri en velgengnin byggist ekki síður á því að til staðar sé góður mannskapur. Á Gullhólma eru tvær fimm manna áhafnir sem eru með bátinn í tvær vikur í senn.

Talsverðar breytingar urðu á rekstrinum hjá Agustsson á árinu 2017 þegar fyrirtækið seldi gamla Gullhólmann og tók við nýjum línubát með sama nafni og færði sig yfir í krókaaflamarkskerfið. Reynslan af bátnum hefur verið vonum framar og veiðar í Breiðafirði og úti fyrir Norðurlandi gengið vel. Aflinn er unninn í saltfisk til Spánar og Portúgals. En Agustson er ekki með öll eggin í sömu körfu því það á og rekur tvær verksmiðjur í Danmörku. Þar hefur líka heldur verið bætt í því fyrirtækið eignaðist nýlega eldisstöð sem sérhæfir sig í eldi á regnbogaurriða.

Sigurður Ágústsson framkvæmdastjóri segir nýja Gullhólmann öflugt verkfæri en velgengnin byggist ekki síður á því að til staðar sé góður mannskapur. Á Gullhólma eru tvær fimm manna áhafnir sem eru með bátinn í tvær vikur í senn. Á þeim tíma róa menn stíft. Á haustin og fram í desember er Gullhólminn við veiðar fyrir norðan en kemur þá í Breiðafjörðinn og er þar fram á sumar. Agustson heldur utan um 1.000 tonn í þorski í krókaaflamarkskerfinu.

„Það er hávertíð, mikil veiði og stutt að sækja. Þetta er eins og við þekkjum vertíðirnar hérna. Þær eru stuttar og snarpar,“ sagði Sigurður þegar rætt var við hann í síðasta mánuði. Hann sagði að vertíðin nú væri betri en í fyrra en að miklu leyti byggi árangurinn á því að veður séu skapleg.

Áhyggjur af loðnubresti

Eins og fleiri hefur Sigurður áhyggjur af loðnubrestinum. „Það er full ástæða til þess að vera áhyggjufullur. Ef þetta verður til þess að þorskurinn fær ekki nægilega mikið að éta getur loðnubresturinn vissulega haft áhrif á viðgang þorskstofnsins. Þetta er þróun sem maður bara nær ekki alveg utan um og hún er ógnvænleg. Ekki síst í ljósi þess að þorskstofninn er stór og sterkur um þessar mundir og veitir því alls ekki af loðnu. Stærsti hluti aflans núna er yfir átta kílóa fiskur sem hentar mjög vel í saltfiskvinnsluna okkar.“

Sigurður segir að saltfiskurinn hafi nokkuð lengi setið eftir í verðum. Nú séu jákvæð teikn á lofti að verð fari hækkandi. Þar hjálpi meðal annars til dræm veiði í Noregi og minna magn þorsks þaðan fari í salt en reiknað hafi verið með. Þetta valdi titringi úti á markaðnum og hjálpi til við að leiðrétta verðið á saltfiski. Hann segir saltfiskmarkaðinn hafa breyst á Spáni. Léttsaltaður þorskur hafi verið í mikilli sókn undanfarin ár og haft áhrif á eftirspurn eftir hefðbundnari saltfiskafurðir. Það hafi síðan gert það erfiðara um vik að leiðrétta verðin. Auk Spán og Portúgal selur Agustson saltfisk til Ítalíu og Grikklands.

Tilraunaveiðar á hörpuskel

Agustson gerir einnig út dragnótarbátinn Leyni sem hefur verið við tilraunaveiðar á skel á haustin.  Annar bátur, Hannes Andrésson frá Fisk Seafood, tekur einnig þátt í þeim veiðum. Það var talsvert högg fyrir útgerðina í Stykkishólmi árið 2002 þegar hörpuskelveiðar hrundu eftir að sýking kom upp í stofninum. Hörpuskelveiðar höfðu verið mjög mikilvægar fyrir fyrirtækið  og samfélagið á Stykkishólmi. Á níunda og fyrri helming tíunda áratugar síðustu aldar var aflinn nálægt 10.000 tonnum á ári að meðaltali en frá og með árinu 2003 hafa veiðarnar verið bannaðar. Jafnstöðuaflinn í Breiðafirði frá 1992 til 2003 var 8.500 tonn á ári. 2016, þegar tilraunaveiðarnar hófust í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, var aflinn um 280 tonn og á síðasta ári voru veidd um 700 tonn.

Sum svæði öflugri en önnur

„Við höfum verið að sinna þessum rannsóknum sem hafa varað frá því í september og fram í byrjun janúar. Það er erfitt að segja til um ástand stofnsins núna. Við vorum frekar bjartsýnir um að hann væri að ná sér á strik en okkur finnst að veiðiþolið á svæðunum gæti verið betra. Útbreiðslan mætti líka vera meiri. En á sumum svæðum, þar sem við höfum sinnt þessum tilraunaveiðum, hefur þéttleikinn verið með því besta sem við þekkjum. En engu að síður hefur veiðiþolið dálítið látið undan. Tilraunirnar ganga út á að kanna veiðiþol skeljarinnar og í því skyni höfum við farið eftir mismunandi veiðireglu eftir svæðum sem er allt frá 6 og upp í 14% af stofni hvers svæðis. Við metum stofnstærð svæðisins og svo er fylgst með því hvenær afli á sóknareiningu fer að falla. Þetta er gert í þeim tilgangi að við áttum okkur betur á því hvað við í rauninni getum tekið af stofninum á hverju ári. Hér á árum áður var stuðst við flata 10% veiðireglu en við teljum að sum svæði séu öflugri en önnur. Þar er hraðari nýliðun og sum svæði virðast þola meiri veiði en önnur,“ segir Sigurður.

Sáttir við 2.000 tonn á ári

Minna var veitt í fyrra en árið þar á undan sem var mönnum nokkur vonbrigði. Útlit er einnig fyrir að minna verði veitt á næsta ári en þessu ári. Sigurður segir að tilraunaveiðarnar hafi staðið yfir í langan tíma og lengri en nokkur mann óraði fyrir að þær myndu gera. Sé raunsætt litið á málið eins og staðan sé núna, verði þess langt að bíða að aflinn fari upp í svipað magn og var þegar best lét. Nú gætu menn lifað tiltölulega sáttir við það ef veiðin færi upp í um 2.000 tonn á ári.

Um er að ræða nokkrar skelbleyður sem hver um sig er á bilinu 3-5 ferkílómetrar að stærð og geta haldið nokkur þúsundum tonnum hver. Skilin þar sem skelbleyðan byrjar og endar geta verið mjög skörp sem virðist benda til þess að skelin þurfi afar sértæk skilyrði til þess að dafna. Skelbleyðurnar eru myndaðar og með því móti er hægt að telja hve margir einstaklingar eru á hverjum fermetra. Þannig er hægt að áætla með nokkuð nákvæmum hætti hvert magnið er á hverri tiltekinni bleyðu. Þetta eru rannsóknir sem Hafró hefur sinnt og fer í þetta mikill tími og talsverðir fjármunir.

„Eins og þetta er í dag er þetta óskapleg hungurlús. Við berum kostnaðinn við tilraunaveiðarnar og þær kosta sitt. Við kostum leiðangrana en Hafró hefur lagt til vísindamennina. Miklar skráningar fylgja veiðunum og við þurfum að sinna ákveðinni veiði á hverju svæði fyrir sig. Sum svæðin gefa lítinn afla á sóknareiningu og það getur því verið kostnaðarsamt að sækja á þau svæði. Okkar drifkraftur er fyrst og fremst að fylgjast með því hvernig stofninum vegnar. Við höfum líka verið að setja út 30-40 lirfusafnara vítt og breitt um Breiðafjörð á hverju ári og höfum gert það frá árinu 2004. Þeir gefa okkur vísbendingu um hversu vel heppnuð hrygningin er hverju sinni og hvar lirfurnar setjast í Breiðafirði. Einnig er ákveðið samhengi milli þess hvað kemur í tiltekinn lirfusafnara og hvernig svæðið þar í kring dafnar.“

Greinin birtist í Fiskifréttum 17. apríl síðastliðinn