mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gullkarfaveiðar við Ísland vottaðar sjálfbærar

4. maí 2014 kl. 08:56

Gullkarfi

Áður höfðu þorskur, ýsa og ufsi hlotið vottun.

Þann 1. maí var gefin út alþjóðleg vottun um að veiðar á gullkarfa (sebastes marinus / sebastes norvegicus) við Ísland séu stundaðar í samræmi við ábyrga fiskveiðistjórn og góða umgengni um auðlindir hafsins. Vottunin, sem byggir á ströngustu kröfum sem settar eru á alþjóðavettvangi, er unnin undir merkjum Iceland Responsible Fisheries (IRF) en áður hefur sambærileg vottun verið gefin út fyrir íslenskan þorsk, ýsu og ufsa.

Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda, segir á vef fyrirtækisins að þetta séu jákvæðar og mikilvægar fréttir. 

„Það er ákaflega mikilvægt að gullkarfaveiðar hafi nú verið vottaðar. Gerðar eru sífellt auknar kröfur um ábyrgar fiskveiðar meðal kaupenda sjávarafurða og er vottunin til vitnis um að íslenskur sjávarútvegur sé í fararbroddi varðandi sjálfbæra nýtingu fiskistofna.“