þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gullver frá veiðum og viðhaldi sinnt

13. júlí 2020 kl. 12:00

Gullver NS við bryggju á Seyðisfirði á góðum degi, framan við frystihúsið á staðnum. MYND/Þorgeir Baldursson

Gullver NS landaði síðast á Seyðisfirði 24. júní. Síðan hefur verið unnið að viðhaldi og breytingum á skipinu í heimahöfn og er ráðgert að hann haldi á ný til veiða 29. júlí. Sumarlokun er hjá frystihúsinu á Seyðisfirði og er þá tækifærið nýtt til að vinna við skipið.

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Þar segir að aðalvél skipsins verður tekin upp og annast fyrirtækið Framtak í Reykjavík það verk. Ýmis verkefni eru í höndum seyðfirskra verktaka og má þar til dæmis nefna stækkun stakkageymslunnar. Þá verður sett krapavél í skipið og mun hún leysa af hólmi tvær skelísvélar sem voru fyrir. Reynslan af krapavélum í Vestmannaey og Bergey er góð og hafði það áhrif á þá ákvörðun að koma einnig upp slíkri vél í Gullver. Álitið er að krapinn tryggi betri kælingu á aflanum og auk þess léttir tilkoma hans mikið vinnu í lestinni. Það er fyrirtækið Kapp sem annast uppsetningu krapavélarinnar.

Að sögn Karls Jóhanns Birgissonar, rekstrarstjóra útgerðarsviðs Síldarvinnslunnar, í fréttinni ganga framkvæmdirnar um borð í Gullver samkvæmt áætlun en yfirvélstjórar skipsins, þeir Gunnlaugur Hafsteinsson og Halldór Sverrisson, hafa daglegt eftirlit og umsjón með þeim.