sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Guðmundur Runólfsson hf. langstærsti eigandinn í Fiskmarkaði Íslands

11. apríl 2008 kl. 19:50

Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði er orðið langstærsti eignaraðilinn í Fiskmarkaði Íslands hf. GR er komið með ráðandi hlut í fyrirtækinu eftir kaup á 40% eignarhlut Rjúkanda ehf, sem er félag í eigu nokkurra einstaklinga. Fyrir átti Guðmundur Runólfsson 3,5% í FÍ, en fiskmarkaðurinn er nú að langstærstum hluta í eigu aðila á Snæfellsnesi. Næststærsti hluturinn í félaginu er innan við 8%, að því er fram kemur á skessuhorn.is.

Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar hf., segir í samtali við Skessuhornið að kaupin á bréfum Rjúkanda séu góð fjárfestingu, en kaupverðið sé trúnaðarmál. Um 60% af þeim fiski sem fer á markað hér á landi fer í gegnum FÍ, að sögn Guðmundar. Fiskmarkaður Íslands var stofnaður árið 1991 og er með starfsstöðvar víða um land, í Þorlákshöfn, Reykjavík, Akranesi, á öllum höfnum á Snæfellsnesi og á Skagaströnd. Guðmundur segir að fyrstu þrír mánuðir ársins hafi verið mjög góðir hjá FÍ, um 16.000 tonn fóru á markaðinn.