sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Háar stofnvísitölur þorsks, gullkarfa og löngu

18. apríl 2017 kl. 15:52

Um borð í r.s. Árna Friðrikssyni í marsrallinu 2016. (Mynd: Guðmundur Bjarnason).

Niðurstöður togararallsins liggja nú fyrir.

Stofnvísitölur þorsks, gullkarfa og löngu mældust háar miðað við síðustu þrjá áratugi í togararalli Hafrannsóknastofnunar sem fram fór nýlega. Vísitala ýsu er nú nálægt meðaltali tímabilsins, en vísitölur steinbíts eru lágar. 

Mælingarnar benda til að stofnvísitölur ufsa, skarkola, þykkvalúru, langlúru og grásleppu séu háar eða vaxandi, en stofnar hlýra, tindaskötu og skrápflúra í sögulegu lágmarki. Stofn skötusels fer minnkandi og nýliðun í stofninn hefur verið léleg miðað við árin 1998-2007.

Meðalþyngd þorsks 7 ára og eldri er hærri en fyrri ár, en lág eða í meðallagi hjá yngri fiski. Meðalþyngd ýsu eftir aldri mældist há hjá öllum aldurshópum nema 3 ára. Loðna var helsta fæða þorsks og ýsu eins og ávallt á þessum árstíma.

Útbreiðsla ýmissa tegunda hefur breyst á tímabilinu, t.d. ýsu og skötusels og magn ýmissa suðlægra tegunda s.s. svartgómu og litlu brosmu hefur aukist við sunnanvert landið. 

Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár.

Sjá nánar niðurstöður togararallsins 2017 á vef Hafrannsóknastofnunar.