þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hægst hefur á samþjöppun kvóta

Guðsteinn Bjarnason
8. október 2018 kl. 07:00

Kristinn Nikulás Edvardsson hefur skoðað landfræðilega samþjöppun í kvótakerfinu. Rannsóknin er liður í Evrópuverkefninu SAF21 þar sem félagsleg áhrif fiskveiðistjórnunarkerfa eru skoðuð.

„Eftir umræðunni hefði maður haldið að þetta hélt allt saman áfram að fara beina leið upp, en það hefur hægst á. Þetta er það sem kom mér hvað mest á óvart,“ segir Kristinn Nikulás Edvardsson, doktorsnemi í landafræði.

Hann hefur birt hefur niðurstöður rannsókna sinna á landfræðilegri samþjöppun í kvótakerfinu hér á landi. Meðhöfundar hans eru Cezara Pastrav og Karl Benediktsson, prófessor í mannvistarlandafræði við Háskóla Íslands, en Karl er leiðbeinandi Kristins í doktorsnámi. Grein þeirra birtist í tímaritinu Applied Geography síðastliðið í maí síðastliðnum. Rannsóknin er liður í SAF21, Evrópuverkefni sem beinir athyglinni að félagslegum þáttum í sjávarútvegi og snýst um að kanna félagsleg áhrif fiskveiðistjórnunarkerfa.

„Við erum tíu manns í háskólum og stofnunum og líka einkafyrirtækjum í þessu, öll með okkar eigin verkefni í gangi en öll eiga þau að hafa sama þema sem er að horfa á 21. öldina með nýja nálgun á gömul félagsleg vandamál,“ útskýrir Kristinn.

Mælikvarði á samþjöppun
Eitt af því sem þau gerðu var að reikna út svokallaðan Gini-stuðul sem sýnir

kvótadreifingu eftir byggðarlögum á Íslandi. Gini-stuðullinn hefur helst komið við sögu hér á landi þegar verið er að reikna út jöfnuð eða ójöfnuð í tekjudreifingu og eignadreifingu landsmanna.

Auk þess hefur hann einu sinni áður verið notaður í samhengi sjávarútvegs hér á landi, en það gerðu þeir Þórólfur Matthíasson, Sveinn Agnarsson og Florent Giry í grein sem þeir birtu árið 2016 í tímaritinu Marine Policy. Þar voru þeir samt ekki að skoða landfræðilega samþjöppun heldur samþjöppun kvótaeignar fyrirtækja.

„Menn hafa ekki gert þetta í landfræðilegu samhengi áður hér á landi,“ segir Kristinn.

Útreikningarnir sýna að landfræðileg samþjöppun hefur greinilega aukist á tímabilinu 1982 til 2014, sem er það tímabil sem til skoðunar var. Ginistuðullinn hefur hækkað en líka sést að samþjöppunin er mismikil eftir tegund veiða. 

Stuðullinn hækkar
Hún er meiri í veiðum á uppsjávarfiski en botnfiskveiðum, sem ætti svo sem ekki að koma á óvart þar sem uppsjávarveiðar hafa verið að mestu bundnar við ákveðna landshluta umfram aðra. Hæstur varð Ginistuðullinn í skelfiskveiðum, enda eru þær verulega staðbundnar.

Þannig hefur Ginistuðull botnfiskveiða hækkað úr 0,64 í 0,76 frá árinu 1982 til 2014, stuðull uppsjávarveiða hefur farið úr 0,84 í 0,90 á sama tímabili, en Ginistuðull skelfiskveiða hefur nánast ekkert breyst, og raunar lækkað ef eitthvað er, var 0,87 árið 1982 en kominn í 0,85 árið 2014.

 Fyrst í botnfiski, svo í uppsjávarfiski
Frekari greiningu má síðan sjá í línuritinu sem birt er hér á opnunni. Þar sést þróun ginistuðulsins á þessu tímabili fyrir landanir í botnfiskveiðum annars vegar og uppsjávarveiðum hins vegar. 

Athyglisvert er að samþjöppunin byrjar í botnfiskveiðunum upp úr 1990, en svo þegar hún er komin upp að vissu marki og stöðvast rúmum áratug síðar þá tekur fljótlega við samþjöppun í veiðum á uppsjávarfiski. Sú þróun stöðvast einnig í kringum 2007 þegar ginistuðull uppsjávarlandana var kominn upp fyrir 0,9.

„Það er kannski erfitt að útskýra þetta, nema samþjöppunin byrji kannski á verðmætustu tegundunum og þeir færi sig síðan yfir í uppsjávarfiskinn,“ segir Kristinn. „En svo vitum við líka að til að vera með almennilegan hagnað í uppsjávarveiðum þarftu að vera stór.“

Samþjöppunin stöðvast
Sem fyrr segir kom það Kristni einna mest á óvart í þessum tölum að samþjöppunin hefur ekki haldið áfram heldur virðist sem verulega hafi hægst á henni, fyrst í botnfiskveiðum og síðan í veiðum uppsjávarfisks.

Þróunin hefur þó verið misjöfn eftir landshlutum, eins og sjá má nánar í grein þeirra Kristins.

„Vestfirðirnir voru til dæmis að fara illa út úr þessu til að byrja með, en þeir virðast vera að koma til baka. Að minnsta kosti lítur þetta betur út í dag miðað við hvernig staðan var einu sinni.“

Bíldudalur og Flateyri til dæmis hafa samt ekki náð sér á strik aftur í kvótastöðu en Bolvíkingar eru komnir með meiri kvóta en þeir höfðu í upphafi tímabilsins.

„Það er eflaust að einhverju leyti að þakka göngunum og strandveiðunum. Nú eru smábátakarlar jafnvel farnir að gera út frá Bolungarvík og geta þess vegna búið á Ísafirði.“

Mikilvægi félagslegra áhrifa
Í lokaorðum greinarinnar segja þau Kristinn, Cezara og Karl að landfræðileg samþjöppun sé rökrétt afleiðing af fiskveiðistjórnunarkerfi með framseljanlegum kvótum.  Því fylgi siðferðileg og hugmyndafræðileg álitamál sem taka þurfi alvarlega.

„Fyrir utan þessar umdeildu hugmyndafræðilegu klyfjar framseljanlega kvótans þá þarf að taka á ýmsum þáttum öðrum en efnahagslegum þegar verið er að móta sjávarútvegsstefnu fyrir 21. öldina. Ekki er hægt að líta framhjá félagslegum og landfræðilegum áhrifum þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem kosið er að nota.“

Í framhaldinu hefur Kristinn síðan hug á að búa til viðameira reiknilíkan fyrir íslenskan sjávarútveg þar sem áherslan yrði á samfélagslega þætti frekar en efnahagslega eingöngu. Hugmyndin er þá sú að nota niðurstöðurnar úr greininni til að sannprófa líkanið.

„Það er samt gríðarlega erfitt. En þetta er það sem mig langar að gera næst.“