þriðjudagur, 7. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hægstæð verðþróun bætir upp loðnubrestinn

9. janúar 2020 kl. 13:19

Útlutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða jókst fyrstu ellefu mánuði ársins 2019, þrátt fyrir samdrátt í magni sem helst má rekja til loðnubrestsins.

Ástæðan er einkum hagstæð verðþróun á sjávarafurðum erlendis. Gengi krónunnar ræður þarna einnig miklu, en verðmætaaukningin nemur engu að síður tveimur prósentum eftir að gengisbreytingar eru teknar frá.

Þetta kemur fram á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), en þar segir að verð erlendis á sjávarafurðum hafi hækkað nær samfellt frá ársbyrjun 2018.

„Hækkunin náði yfir nær allar tegundir en einna mest hækkaði verð á ferskum afurðum og einnig skreiðaafurðum.“ 

Meðfylgjandi mynd sýnir áhrif magns, gengis og afurðaverðs á útflutningsverðmæti sjávarafurða.

„Margir kunna að halda að eftir að fiskurinn er veiddur þá sé restin sjálfgefin, hann einfaldlega selji sig sjálfur,“ segir í frásögn SFS. „Staðreyndin er hins vegar sú að fiskur í sjó felur ekki í sér verðmæti í sjálfu sér, það þarf að gera úr honum verðmæti og selja á mörkuðum erlendis þar sem hörð samkeppni ríkir og kröfurnar eru stöðugt meiri. Sem endranær er ekkert gefið í þeim efnum og gegnir fjárfesting í nýsköpun og tækni lykilhlutverki sem og markaðssetning.“

Nánar má lesa um þetta á vef SFS.