sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hægt að telja lýsnar á löxunum

Guðsteinn Bjarnason
28. júlí 2018 kl. 07:00

Aðfaranótt síðasta miðvikudags synti þessi lax í gegnum myndavélarbúnað frá Vaka hf í Laugardalsá fyrir vestan.

Hafrannsóknarstofnun rennir stoðum undir hugsanlegar breytingar síðar meir á áhættumati vegna erfðablöndunar með margvíslegum rannsóknum á bæði eldisfiskum og villtum fiskum.

Hafrannsóknastofnun skýrði nýlega frá því að engar breytingar yrðu gerðar að sinni á áhættumati vegna erfðablöndunar. Áfram verður haldið ýmsum rannsóknum til að renna frekari stoðum undir áhættumat, eins og skýrt var frá í skýrslunni um áhættumatið sem stofnunin birti á síðasta ári.

Partur af þessum rannsóknum er uppsetning á árvaka, myndavélarbúnaði frá Vaka hf, sem verður í tólf mikilvægum veiðiám víðs vegar um landið.

„Það verður hægt að skoða hvern einasta fisk sem syndir upp ána,“ segir Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis og fiskiræktar hjá Hafrannsóknastofnun. „Þetta eru vídeómyndavélar og gæðin eru það mikil að hægt er að sjá hvort það er villtur fiskur eða eldisfiskur sem syndir í gegn. Það er líka hægt að telja lýs á þeim.“

Þessar rannsóknir er þegar hafnar. Búið er að setja upp búnaðinn í þremur ám: Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi, Krossá á Skarðsströnd og Vesturdalsá í Vopnafirði. Síðan er ætlunin að bæta við þremur ám árlega þannig að eftir fjögur ár verði hann kominn í allar tólf árnar.

Aðgengilegt öllum á netinu
Ragnar segir að myndir af fiskunum að synda upp árnar verði sýnilegar öllum almenningi á sérstakri vefsíðu, ásamt upplýsingum um fjölda fiska í ánni.

„Þú getur bara farið eftir daginn og skoðað hvað fóru margir fiskar upp í Laugardalsá og hvernig líta þeir út.“

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar eru þegar farnir að sjá þessar myndir og stutt er í að almennur aðgangur verði opnaður.

Ragnar greinir einnig frá því að Hafrannsóknastofnun sé nú þegar byrjuð að safna erfðaefni laxa úr öllum helstu ám landsins. Þau verði geymd í frysti.

„Við tökum þá svil úr hængum sem eru villtir í ám. Þau eru sett í fljótandi köfnunarefni og geymd þannig. Þetta er varúðarráðstöfun ef allt fer á versta veg, en ég held að það séu nú engar líkur á því að við þurfum að nota þetta nokkurn tímann.“

Rafveidd og arfgerðargreind
Þá segir Ragnar Hafrannsóknastofnun gera arfgerðargreiningar á öllum fiskum sem grunur leikur á að geti verið eldisfiskar. Þannig sé unnt að greina hvort um er að ræða eldisfisk, villtan fisk eða blending.

„Við gerum líka erfðamælingar í meira en þrjátíu ám, sem fara þannig fram að rétt liðlega hundrað seiði eru rafveidd og þau síðan arfgerðargreind til að komast að því hvort um sé að ræða blendinga við eldisfiska. Þannig sjáum við hversu mikið af erfðaefninu hefur blandast, hversu margir eldisfiskar hafa í raun náð að hrygna og blandast við villta fiska.“

Hann segir þetta ekki hafa verið gert með reglubundnum hætti hingað til, en þó nægilega oft til að staðan í dag sé vel þekkt. Erfðatæknina segir hann síðan hægt að nota til þess að rekja hvern einasta eldisfisk sem kemur upp í ám til eldisfyrirtækja og jafnvel einstakra eldiskvía.

„Það getum við vegna þess að mönnum ber að skila inn erfðaefni úr öllum foreldrafiskum. Þetta er allt skráð og skilað inn til Mast.“

Strikamerki í kvörnunum
Önnur aðferð verður einnig notuð til að rekja uppruna eldisfiska sem veiðast í ám. Sú aðferð felst í því að örlitlu magni af náttúrlegu baríum, með breyttum samsætuhlutföllum, er sprautað í bóluefnið þegar eldisfiskar eru bólusettir.

„Barium vill eins og kalsíum setjast í beinvef okkar allra, líka í fiskum. Með tímanum skiptist það síðan út í öllum beinum nema kvörnum fiskanna. Kvarnirnar vaxa bara hægt og rólega og eftir situr þetta baríum, þannig að þegar kvarnirnar eru skoðaðar síðar meir þá er þetta eins og strikamerki. Þannig getum við greint það að akkúrat á þessu æviskeiði fékk fiskurinn barium af þessum samsætuhlutföllum.“

Stofnunin hefur ennfremur í hyggju að gera takmarkaða tilraun í Ísafjarðardjúpi í samvinnu við eldisfyrirtæki. Sú tilraun yrði takmörkuð 3.000 tonn af frjóum laxi og til 5 ára og allir laxar merktir sérstaklega til að þeir þekkist ef þeir sleppa.

„Við verðum þá komin með eldi nálægt alvöru laxveiðiám,“ segir Ragnar. Eldi á þeim svæðum þar sem það er leyft í dag er mjög langt frá laxveiðiám, sem er mjög mikill kostur, en við vitum samt ekki nákvæmlega hvernig dreifingin er á fiski sem sleppur. Við verðum með vöktun á þessu öllu saman.“