miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hæsta álagningin var 5,6 milljónir

8. apríl 2011 kl. 17:38

Fjögur skip fengu álagningu vegna umframveiði upp á samtals 11 milljónir króna.

Fiskistofa hefur lokið álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla íslenskra skipa á fiskveiðiárinu 2009/2010. Skip í aflamarkskerfunum sem veiddu umfram aflaheimildir voru sextíu talsins og heildarupphæð álagninga var rúmar 18 milljónir. Hæsta einstaka álagningin var 5,6 milljónir króna.

Á þessari stundu hafa verið innheimt um 30% af heildarupphæð álagninga og 90% af heildarfjölda álagninga. Af einstökum álagningum er upphæð vegna umframveiða fjögurra skipa yfir milljón krónur. Samanlagðar eru þessar fjórar álagningar um 62 % af heildarupphæð þess gjalds sem lagt er á þau 60 skip sem veiddu umfram aflaheimildir á síðasta fiskveiðiári.

Alls gerðu fimm aðilar greiðslusamkomulag og stóðu fjórir við það. Fimm bátar hafa verið sviptir veiðileyfi vegna vangreiddrar álagningar og hefur einni sviptingu verið aflétt í kjölfar greiðslu.

Gjald vegna ólögmæts sjávarafla er lagt á skip sem veiða umfram aflaheimildir sínar. Upphæð gjaldsins ræðst af andvirði hins ólögmæta sjávarafla. Gjaldið sem um ræðir er reiknað út og lagt á skip eftir að kvótaárinu lýkur og því geta útgerðir, á þeim tímapunkti, ekki flutt til sín kvóta fyrir þeim afla sem veiddur var umfram aflaheimildir.

Bregðist útgerðir ekki við og greiði álagt gjald er skipið svipt veiðileyfi.  Upphæðin sem innheimtist rennur til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins.