mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hætta vegna samnings við Arnarlax

7. september 2018 kl. 09:50

Eldislax er veiddist í Vatnsdalsá. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Stærsti hlutinn af íslenska kokkalandsliðinu tók þá ákvörðun í gær að segja sig úr liðinu - ástæðan er samstarfssamningur við fiskeldisfyrirtækið Arnarlax.

Stærsti hlutinn af íslenska kokkalandsliðinu tók þá ákvörðun í gær að segja sig úr liðinu. Tilefnið er styrktarsamningur liðsins við fiskeldisfyrirtækið Arnarlax sem elur norskættaðan lax í sjókvíum.

Klúbbur matreiðslumeistara og Arnarlax kynntu samstarfssamning sinn á veitingastaðnum Kolabrautinni í Hörpu á miðvikudag. Ekki leið á löngu þangað til Sturla Birgisson, kokkalandsliðsmaður til fjölda ára, sagði frá þeirri ákvörðun sinni á samfélagsmiðlum að hann sjái sig tilneyddan til að segja sig úr klúbbi matreiðslumeistara. Tilefnið var nefndur styrktarsamningur liðsins við Arnarlax fyrir hönd kokkalandsliðsins.

„Í mínum huga er þessi samningur versta uppákoma sem hefur orðið í sögu klúbbsins,“ skrifar Sturla. „Það er grátlegt til þess að hugsa að á sama tíma og mörg af helstu veitingahúsum landsins hafa tekið saman höndum til varnar umhverfi og lífríki Íslands með því að lýsa yfir að þau bjóði aðeins lax úr landeldi, hafi klúbburinn látið glepjast fyrir fé og sé að auglýsa norskan eldislax sem alinn er í opnum sjókvíum við landið,“ skrifaði hann jafnframt.

Sturla, sem jafnframt er ástríðuveiðimaður, yfirlýstur andstæðingur sjókvíaeldis og leigutaki Laxár á Ásum, segir frá því í yfirlýsingu sinni að hann veiddi lax í Vatnsdalsá í vikunni sem bar öll merki þess að vera úr eldi. Hafrannsóknastofnun hefur staðfest grun hans og fleiri um að þar var á ferðinni eldislax – en Vatnsdalsá rennur til sjávar langt frá öllum sjókvíum laxeldisfyrirtækja. Þykir þeim sem hafa gagnrýnt sjókvíaeldið að þar sannist það sem þeir hafa löngum sagt að sleppi eldislax úr kvíum þá séu öll vatnakerfi landsins undir og villtir stofnar þeirra í hættu. Þessu hafa eldismenn jafnan gert lítið úr og fullyrt að villtum laxastofnum í íslenskum ám stafi engin hætta af sjóeldi. 

Síðla dags í gær birtu síðan fjórtán af sautján liðsmönnum kokkalandsliðsins yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þar sem frá þeirri ákvörðun var sagt að styrktarsamningurinn við Arnarlax gerði þeim ekki kleift að halda áfram með liðinu. Það var rökstutt með þeim hætti að lax sem er alinn í opnum sjókvíum sé ógn við villta lax- og silungastofna og hafi margvísleg neikvæð umhverfisáhrif á lífríki Íslands. Þau gætu ekki lagt nafn sitt við að kynna hráefnið í gegnum störf sín fyrir landsliðið.

„Þetta snýst um sjálfbærni, jákvæða ímynd liðsins, verndun náttúru Íslands og því að tengja okkur við fyrirtæki sem eru fyrirmyndir þannig að við séum fyrirmyndir,“ segir Ylfa Helgadóttir, kokkalandsliðsmaður, í viðtali við Rúv.

Eftir Kristian Matthíasson, forstjóra Arnarlax, er haft í Fiskeldisblaðinu að samstarfið við Klúbb matreiðslumeistara á Íslandi og Kokklandsliðið sé spennandi verkefni og „jafnframt viðurkenning á gæðum afurða okkar sem við erum mjög stolt af.“

Hvorki Arnarlax né Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri Kokkalandsliðsins, hafa tjáð sig um ákvörðun liðsins, þegar þetta er skrifað.

Kokkalandsliðið er skráð til leiks í heimsmeistaramóti í matreiðslu í Lúxemborg í nóvember. Undirbúningur liðsins hefur staðið undanfarið tæpt ár.

Uppfært klukkan 13:00. 

Rúv segir frá því að stjórn Klúbbs matreiðslumeistara hafi ákveðið að rifta samningi við Arnarlax.