þriðjudagur, 22. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hættir tilraunaveiðum á ígulkerjum

Guðjón Guðmundsson
17. maí 2020 kl. 09:00

Einar Hálfdánarson, útgerðarmaður. Aðsend mynd

Reglugerð um tilraunaveiðarn kveður á um að veiðar utan ákveðinna svæða á sæbjúgum og ígulkerjum séu háðar ákveðnum takmörkunum. Hún er mjög íþyngjandi, segir útgerðarmaður.

Útgerðin Emel ehf. í Neskaupstað, sem fékk leyfi fyrir tilraunaveiðum á skollakopp í Reyðarfirði, hefur hætt veiðunum vegna þess fyrirkomulags sem hefur verið á stýringu þeirra. Hafrannsóknastofnun gaf það nýlega út að niðurstöður sérfræðinga stofnunarinnar hafi leitt í ljós að nýtanleg ígulkeramið virðast vera til staðar í Reyðarfirði.

Skollakoppur fannst á 9 af 10 stöðvum sem rannsakaðar voru og alltaf í töluverðu magni. Meðalstærð var yfir leyfilegri löndunarstærð og lítið um meðafla. Mesta magnið, sem fannst í norðanverðum Reyðarfirði, veiddist á svipuðum stöðum og góður afli fékkst í leiðangri 1993.

Mjög íþyngjandi reglugerð

„Það er ekkert nýtt við það að nýtanleg ígulkeramið séu í Reyðarfirði. Það sem er nýtt er ofstjórnun í tengslum við þessar tilraunaveiðar. Ég get ekki stundað þetta því Hafrannsóknastofnun getur ekki skaffað eftirlitsmann í tilraunaveiðarnar,“ segir Einar Hálfdánarson, útgerðarmaður hjá Emel ehf., sem hefur gert út bátinn Eyja NK til sæbjúgna- og ígulkerjaveiða. Hann segir að á sama tíma hafi annar bátur sem gerður er út til tilraunaveiða á sæbjúgum í Húnaflóa fengið að halda til veiða án eftirlitsmanns.

Emel ehf. fékk leyfi fyrir tilraunaveiðum á skollakopp frá Fiskistofu í Reyðarfirði í janúar. Einar segir að reglugerð um tilraunaveiðarnar kveði á um að veiðar utan ákveðinna svæða á sæbjúgum og ígulkerjum séu háðar ákveðnum takmörkunum. Einar segir reglugerðina mjög íþyngjandi fyrir útgerðina.

„Mér er reyndar til efs að reglugerðin standist lög um stjórn fiskveiða nr. 116 frá 2006 þar sem segir að veiðar eigi að vera öllum frjálsar nema þær séu takmarkaðar með leyfilegum heildarafla og kvóta. Framkvæmd reglugerðarinnar er svo þung í vöfum og svifasein að hún gerir mönnum það ókleift að standa í þessu. Ég get ekki verið með mannskap á launum við að bíða í fyrsta lagi eftir afgreiðslu frá Hafrannsóknastofnun um veiðileyfi á einhverju afmörkuðu svæði og í öðru lagi að beiðni um eftirlitsmann frá Hafrannsóknastofnun sé afgreidd.“

Einar segir að frá því að menn fóru að vitja ígulkerja í byrjun tíunda áratugar hafi Hafrannsóknastofnun verið allar færar leiðir til þess að fylgjast með stofninum. Nú sé kostnaður samfara tilraunaveiðunum velt yfir á þá sem vilja reyna fyrir sér í þessum veiðum.

„Maður þarf að vera sérdeilis mikill þvergirðingur og fáráður til þess að standa í þessu. Þetta er einhver ráðuneytisgjörningur sem er lagður fram, vegur að atvinnufrelsi manna og stangast harkalega á við megin markmið fiskveiðistjórnunar að stuðla að hagkvæmri nýtingu nytjastofna.“

„Veiðunum sjálfhætt“

Einar fékk strax eftirlitsmann frá Hafrannsóknastofnun í janúar. Tekin voru tíu tog sem eftirlitsmaðurinn notaði til grundvallar sinnar skýrslugerðar. Útgerðin þarf að greiða Hafrannsóknastofnun um 80.000 krónur fyrir eftirlitsmanninn á dag.

„Um þetta er svo skrifuð löng og ítarleg skýrsla sem ég segi að ekki sé neitt byggjandi á. Það er varla hægt að byggja skýrslu um stofnmat tegundar í einum firði á einhverjum tíu togum sem ég tek og algjör tilviljun ræður hvar eru tekin. Þetta gekk reyndar bara vel í Reyðarfirðinum. Svo var haldið í Fáskrúðfjörð og þar fékk ég að taka tog eftir margra daga bið. Þá þurfti ég ekki að hafa  eftirlitsmann með mér og ég skilaði gögnum um veiðarnar til Hafró.“

Í framhaldinu sótti Einar um að fá að reyna fyrir sér á heimaslóðum í Norðfirði en fékk þá veiðileyfið en þvert nei frá ráðuneyti til að mega byrja þar sem Hafró gat ekki skaffað eftirlitsmann. Allt gerist þetta í skugga farsóttarinnar með tilheyrandi takmörkunum á athafnafrelsi manna. Engu að síður gerði þetta útslagið. Einar neyddist til að segja upp áhöfninni á Eyja NK. Royal Iceland hefur keypt ígulkerin og unnið þau á sælkeramarkað í Evrópu fyrir hátt verð og þar hefur einnig þurft að segja upp mannskap þar sem báturinn liggur nú bundinn við bryggju. Í febrúar og mars hafði aflinn í Reyðarfirði verið um 25 tonn.

„Það er ekki hægt að haldið úti rekstri með mannskap og öllu tilheyrandi við þessar aðstæður þar sem þriðja hver vika fer í það að bíða eftir svörum frá hinni eða þessari stofnuninni. Meðan Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa geta ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru í reglugerðinni er þessum veiðum sjálfhætt.“