mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafa brugðist félagsmönnum sínum

11. október 2018 kl. 09:58

Heiðveig María Einarsdóttir vill faglegri vinnubrögð innan sjómannaforystunnar. MYND/HAG

Heiðveig María Einarsdóttir býður sig fram til formennsku í Sjómannafélagi Íslands

Heiðveig María Einarsdóttir, sjómaður og viðskiptalögfræðingur, segir að efla þurfi starf sjómannaforystunnar svo þau séu í stakk búin að mæta viðsemjendum sínum í kjaraviðræðum á jafnréttisgrundvelli. Hún segir deyfð yfir forystunni þegar kemur að hagsmunamálum sjómanna og telur pott víða brotinn. Heiðveig hefur boðið sig fram til formennsku í Sjómannafélagi Íslands á móti sitjandi formanni Jónasi Garðarsyni. Hún starfar sem viðskiptalögfræðingur og sem kokkur og háseti á Engey Re1 og er móðir þriggja barna.

gugu@fiskifrettir.is

Trúnaðarmannaráð Sjómannafélags Íslands á að leggja fram tillögu að tíu manna lista stjórnarmanna fyrir 5. nóvember næstkomandi og á sama tíma á ráðið að auglýsa eftir öðrum framboðum. Heiðveig lýsti yfir framboði sínu í færslu á Facebook í byrjun síðustu viku og stóð ekki á stuðningsyfirlýsingunum. Framboði til formanns þarf að fylgja listi 100 meðmælenda og segir Heiðveig þann lista því sem næst kláran.

Rótin að því að Heiðveigu býður sig fram gegn sitjandi formanni var sjómannaverkfallið langa sem stóð yfir frá miðjum desember 2016 til 18. febrúar 2018. Henni fannst sem launþega og sjómanni allt ferlið í kringum kjaraviðræðurnar afar óljóst. Hún fór í kjölfarið að sökkva sér ofan í þessi mál og komst að því hve mjög kjör sjómanna eru bundin í lög.

„Sjómenn hafa mjög sterkar skoðanir á sínum kjaramálum og vita af þeim brotalömum sem eru í kjarasamningunum og kerfinu í heild sinni. Sumt er úr takti við tímann eins og lögin um hlutaskipti og þetta kemur í ljós þegar lögskýringargögn eru skoðuð. Í verkfallinu sökkti ég mér ofan í þessa hluti og það kom í ljós sjómannafélögin höfðu lítið gert af því. Það hafði til dæmis ekki verið lagst yfir dómafordæmi eða annað sem tengist hagsmunum sjómanna. Það er hlutverk sjómannafélaganna að vakta svona hluti; dóma sem falla um málefni félagsmanna og að rýna þau lög til gagns sem ákvarða kjör okkar. Það er mér vitanlega engin önnur stétt í landinu önnur en opinberir starfsmenn með sín kjör jafnbundin í lög og sjómenn,“ segir Heiðveig.

Illa undirbúin í kjaraviðræðum

„Sjómannasamtökin voru illa undirbúin þegar þau gengu til síðustu kjaraviðræðna. Við eigum við ofurefli að etja. Innan útgerðarinnar eru gríðarlegir peningar og þeim fylgja alltaf mikil völd. Samningaviðræður sjómanna og útgerðarmanna hafa alltaf farið fram á heimavelli  útgerðarinnar. Þeir eru alltaf betur undirbúnir og rústa okkur alltaf í faglegum atriðum eins og hagfræði, samningatækni og lögfræði. Þeir vinna alltaf heimavinnuna sína en það hefur sjómannaforustan ekki gert og niðurstaða samninganna sýnir það skýrt sem og illa útfærð ákvæði í samningunum. Mér finnst líka skína í skort á jarðtengingu við stéttina sjálfa. Dæmi um það er að formaður Sjómannasambands Íslands leggur blessun sína yfir frumvarp um eftirlitsmyndavélar til sjós í viðtölum við fjölmiðla þrátt fyrir að mjög skiptar skoðanir séu um það meðal sjómanna. Hann hafi samt ekki séð sóma sinn í því að skila inn umsögn um frumvarpið til þess að standa vörð um hagsmuni sinna manna. Sama má segja um lífeyrissjóðsmálin. Allar vinnandi stéttir á Íslandi fá aukið mótframlag atvinnuveitenda í lífeyrissjóð nema sjómenn. Og það er fátt um svör þegar spurt er.“

Heiðveig segir að rúmlega 20 sjómannafélög séu aðilar að kjarasamningum og það verði að mynda heildstæða heild og eina sameiginlega rödd.

Skekkja í verðmyndun á fisk

„Ég er þeirrar skoðunar að forustan þurfi á faglegum starfskröftum að halda til að eiga roð í útgerðarmenn í kjaraviðræðum. Við þurfum líka að virkja félagsmenn til lýðræðislegrar þátttöku. Verði ég kjörin formaður hlakka ég til að mæta viðsemjendum á jafnréttisgrundvelli. SFS eru fagleg samtök og ég vil mæta þeim á faglegum grundvelli.“

Heiðveig segir að það sé skekkja í verðmyndun á fiski á Íslandi. Það sé eitt af þeim brýnu málum sem þurfi að rýna í. Það sé ekki að ástæðulausu að menn furði sig til dæmis á verði á uppsjávartegundunum. Það sé ekkert eðlilegt við það að verð á makríl sé 40-50 krónur á Íslandi en 170 krónur í Færeyjum, fyrir makríl veiddan úr nánast sömu torfunni. Þetta hafi aldrei verið útskýrt eða sett fram nein haldbær rök sem sýna hvers vegna verðið er svo mikið lægra til íslenskra sjómanna.

„Það er algjör skortur á gegnsæi hvað varðar launauppgjör til sjómanna. Einnig velti ég því fyrir mér hvort ekki þurfi að fara að ákveðnum leikreglum þegar um auðlind þjóðarinnar er að ræða og komið verði á gegnsæi sem sýnir svart á hvítu hvert verðmæti aflans er. Samkvæmt skattalögum ber að selja skyldum aðila vöru eða þjónustu eins og um viðskipti við óskyldan aðila væri að ræða. Engu að síður er kveðið á um það í kjarasamningum sjómanna að fyrirtæki með veiðar og vinnslu á sömu hendi greiði sjómönnum einungis 80% af fiskverði að frádregnu 5% markaðsálagi. Sjómaður í vinnu hjá slíku fyrirtæki er því í raun að fá 75% af verðlagsstofuverði fyrir fiskinn.“