sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafa ekki undan að framleiða

Guðsteinn Bjarnason
25. júní 2021 kl. 09:00

Elín Elísabet Einarsdóttir og Steinunn Káradóttir taka á móti fiski til harðfiskverkunar. MYND/Aðsend

Kári Borgar Ásgrímsson á Borgarfirði eystri keypti fyrir nokkru harðfiskverkunina Sporð frá Eskifirði. Hann segist hafa verið í baksi með ýsuna undafnarið, hún sé á glórulausu verði.

Fyrir tæpum tveimur árum keypti Kári Borgar Ásgrímsson á Borgarfirði eystri, ásamt eiginkonu sinni Helgu Björg Eiríksdóttur, harðfiskverkunina Sporð frá Eskifirði. Nú er komin reynsla á þetta rótgróna fyrirtæki á nýjum stað, en Sporður hefur lengi framleitt bitafisk ofan í landsmenn og ferðafólk.

„Þetta gengur fínt nema það fæst engin ýsa núna, hún er á glórulausu verði,“ segir Kári Borgar. „Við höfum verið að herða steinbít með fínum árangri, og síðan höfum við verið með hlýra. Það er alveg svakalega góður matur þótt það séu svona aðeins skiptar skoðanir. Sumir kvarta yfir að hann sé of feitur meðan öðrum finnst hann horaður, en það eru samt flestir ánægðir.“

Sjálfur segist Kári ekki koma mikið nálægt harðfiskverkuninni. Hann stundi bara fiskveiðar, en eiginkonan og börnin hafa sinnt þurrkuninni.

„Þau eru þrjú núna með þetta, konan og dóttirin og einn enn, og sonurinn var þarna í allan vetur. En nú er hann farinn að kokka ofan í túrista. Hann rekur veitingastað hérna ásamt fleirum.“

Salan hefur gengið vel, en harðfiskurinn hefur að sögn Kára verið til sölu í N1 og Olís.

„Við erum líka að selja eitthvað smotterí hérna heima, og svo eru alltaf að aukast pantanir. Við erum að senda í pósti, þótt það sé ekkert í stórum stíl. En við höfum ekkert undan að framleiða. Það hefur alltaf gengið þannig fyrir sig að það hefur skort fullunna vöru til að selja. Ekki hefur staðið á sölumálunum, og það verður að teljast jákvætt.“

Rólegt á strandveiðinni

„Við höfum reyndar verið aðeins í baksi með ýsuna, hún er líka á svo háu verði núna að maður er eiginlega hættur að hugsa um hana í bili. Við höfum verið að kaupa hana á mörkuðum, en verðið hefur verið 450 til 500 kall, það er ekkert sem við ráðum við," segir Kári.

„Togaraýsan hentar eiginlega best. Venjulega hefur hún verið á lægra verði en það hefur bara verið leiðinlega hátt núna. Og reyndar lítið framboð af henni."

Kári gerir einnig út smábáta frá Borgarfirði og hefur róið bæði á kvóta og strandveiðum á sumrin. Strandveiðarnar hafa þó farið hægt af stað þetta sumarið, eins og venjulega reyndar á þessum slóðum.

„Þetta er nú búið að vera hálfgert basl, en oftast nær hef ég nú náð skammtinum þegar ég hef gefið mér tíma til að fara. En það þarf að hafa mikið fyrir því og það er alltaf smár fiskur hérna fram eftir sumri. Það er fínn fiskur hérna þegar er komið fram í júlí.“

Hann segir engan vafa leika á því að fyrir sjómenn á Austurlandi hefði því verið betra að svæðaskipta magninu eins og áður var gert.

Glimrandi afli en lélegt verð

„Já, það er erfiðara að hafa þetta í einum potti fyrir okkur. Þeir stunda bara ólympískar veiðar núna þarna á vestanverðu landinu. En þetta er bara svona eins og venjulega hjá okkur, það er ekkert beysið fiskiríið á þessum tíma. Það er stundum fiskirí í mars og apríl, en svo ekkert fyrr en ja kannski um þetta leyti, eftir miðjan júní. Og ég held að ástandið sé verra hérna á sunnanverðum fjörðunum, það hefur gengið djöfullega þar.“

Kára gerði síðan tvo báta út á grásleppu í vor, en lét duga að vera á þeim veiðum í rúmar þrjár vikur þótt vel hafi veiðst.

„Það var glimrandi afli, en lélegt verð. Það hefðu fleiri átt að stoppa til þess að vera ekki að moka þessu upp á svona lágu verði. En við fiskuðum ágætlega á þessum dögum.“

Annars segir Kári svo sem ekki mikið að frétta frá Borgarfirði.

„Eigum við ekki að segja að engar fréttir séu góðar fréttir. Það hefur verið heilmikill túrismi hérna, en það hefur ekki verið mikill kraftur í útgerðum núna. Þetta er yfirleitt ekkert mjög spennandi tími hérna fyrri part sumars, þá erum við tiltölulega rólegir.“