þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafa hrakist undan veðri

21. janúar 2019 kl. 15:10

Örfirisey RE. Mynd/Brim

Frystitogarinn Örfirisey RE er nú að veiðum í Barentshafi.

Frystitogarinn Örfirisey RE er nú að veiðum í norskri lögsögu í Barentshafi en að sögn skipstjórans, Ævars Jóhannessonar, var togarinn byrjaður veiðar 6. janúar eftir fjögurra sólarhringa siglingu frá Íslandi. Veiðin byrjaði vel við Bjarnarey en síðan var óveður á svæðinu en það gekk svo niður.

Frá þessu segir á heimasíðu HB Granda þar sem rætt er við Ævar:

„Veðráttan hefur gert okkur lífið leitt síðustu dagana og við höfum hrakist undan veðri yfir stórt svæði og víða þreifað fyrir okkur,“ sagði Ævar en er rætt var við hann í síðustu viku var Örfirisey ásamt fjórum öðrum skipum, grænlenskum, breskum og tveimur færeyskum togurum, norðaustur á svokölluðum Tor Iversen banka og veðurhorfur fyrir næstu daga voru þá góðar.

„Ég hef fulla trú á því að vertíðin sé alveg að bresta á. Þorskurinn er stór og fallegur og kominn með hrogn og framundan er örugglega góður veiðitími,“ segir Ævar.

Áhöfnin á Örfirisey og Ævar skipstjóri þekkja vel til veiða í Barentshafi en að þessu sinni verður skipið bara í norsku lögsögunni. Kvóti Örfiriseyjar er um 1.200 tonn af þorski upp úr sjó og ráðgert er að úthaldið verði 40 dagar, segir í fréttinni.