föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafa sökkt 170 kínverskum fiskibátum

1. nóvember 2017 kl. 14:00

Indónesar að sökkva kínverskum fiskibátum sem staðnir hafa verið að ólöglegum veiðum. MYND/EPA

Indónesíustjórn tekur hart á ólöglegum veiðum innan landhelgi sinnar. Kínverjar kvarta sáran.

Sjávarútvegsráðherra Indónesíu, kona að nafni Susi Pudjiastuti, hefur skapað sér töluverðar óvinsældir í Kína vegna hörku sinnar gagnvart kínverskum bátum sem veitt hafa ólöglega innan indónesískrar landhelgi.

Stefna Indónesíu er sú að sökkva slíkum bátum. Frá árinu 2014 hafa Indónesar sökkt 170 kínverskum fiskibátum, sem allir hafa verið staðnir að veiðum innan landhelginnar.

Þetta fullyrðir kínverska matvælatímaritið Dong Pin Dong Lue, að því er fram kemur í frásögn á fréttavefnum Seafoodsource.com.

Í kínverska tímaritinu er þessi stefna Indónesíu harðlega gagnrýnd og spurt hvort aðgerðirnar séu ekki ólöglegar, enda séu yfirráð ríkja í Suður-Kínahafi umdeildar.

Í frásögn Seafoodsource er hins vegar bent á að hert eftirlit Indónesíu með kínverskum bátum, sem koma til hafnar í Indónesíu, hafi skilað þeim árangri að útflutningur frá Indónesíu til Kína hafi aukist verulega á þessu ári.