laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafa tapað 80-100 milljörðum á þorskeldi

12. febrúar 2011 kl. 09:00

Þorskur

Miklar vonir sem bundnar voru við þorskeldi í Noregi hafa algjörlega brugðist og gríðarlegir fjármunir tapast.

Þau fyrirtæki í Noregi sem stundað hafa þorseldi hafa tapað samtals jafnvirði 80-100 milljarða íslenskra króna, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren. Fyrir aðeins nokkrum árum trúðu margir því að þorskeldið yrði með tímanum jafnstórt og laxeldi í Noregi. Þær vonir hafa brugðist hrapalega.

Eitt þessara fyrirtækja er Fjord Marine sem tapað sem svarar 20 milljónum íslenskra króna á viku hverri í tíu ár. Það eru yfir 10 milljarðar króna á öllu tímabilinu.

Þrátt fyrir þetta telur Paul Birger Torgnes forstjóri fyrirtækisins að þorskeldi eigi framtíð fyrir sér enda þótt fjárfestar séu ekki tilbúnir að leggja meira fé í þessa grein sem stendur. Að hans dómi eru margar ástæður fyrir því hvernig fór. Sjúkdómar herjuðu á fiskinn og markaðir voru erfiðir. Á sama tíma voru þorskkvótar í Barentshafi stórauknir og verðið lækkaði samfara auknu framboði.

Þeir sem enn trúa á þorskeldið segja að dýrkeypt reynsla af þessari tilraun komi greininni að notum síðar meir. Þannig hafi mikillar þekkingar verið aflað, svo sem við seiðaeldi og við glímuna við sjúkdóma.