mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafa þungar áhyggjur af loðnubresti

Guðsteinn Bjarnason
30. janúar 2020 kl. 15:15

Hiroshi Yamasaki frá Maruha Nichiro, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims, í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. MYND/Eyjafréttir

Fulltrúar þriggja japanskra sjávarútvegsfyrirtækja í heimsókn á Íslandi

Loðna er vinsæl matvara í Japan og megnið af henni kemur frá Íslandi. Japanskir loðnuframleiðendur óttast að loðnubresturinn hér geti þó gert neytendur fráhverfa loðnu. Þúsundir starfa séu í húfi.

Fulltrúar þriggja japanskra sjávarútvegsfyrirtækja heimsóttu Ísland í síðustu viku, héldu á fund bæði sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra og héldu einnig opinbert erindi í Þekkingarsetri Vestmannaeyja þar sem þeir greindu frá áhyggjum sínum af loðnubrestinum hér á landi.

Þeir sögðu afar mikilvægt fyrir markaðinn í Japan að loðna haldi áfram að berast frá Íslandi.

„Til þess að halda loðnumarkaðnum í Japan þarf að minnsta kosti tíu þúsund tonn af loðnu,“ sagði Tamura Takahiro frá Azuma Foods International. Á síðasti ári hafi enn verið til nægar birgðir en þær muni klárast í júní næstkomandi.

Yohei Kitayama frá Okada Suisan tók í sama streng og sagði fyrirtækið reiða sig alfarið á loðnu frá Íslandi.

Bæði þessi fyrirtæki eru frekar lítil á heimsvísu en ráðandi á loðnumarkaðnum í Japan.

Þriðja fyrirtækið er Maruha Nichiro, en það er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims, stofnað árið 1880 og með ársveltu upp á ríflega þúsund milljarða íslenskra króna. Það er nokkru meira en fjárlög íslenska ríkisins.

Í viðskiptum við Vinnslustöðina

Alls starfa um 11 þúsund manns hjá Maruha Nichiro og dótturfyrirtækjum þess, en samtals er þetta samsteypa 153 fyrirtækja víðs vegar um heiminn, þar af er helmingurinn í Japan.

Öll fyrirtækin þrjú hafa átt í viðskiptum við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum og leggja þar mesta áherslu á loðnu ásamt makríl. Vinnslustöðin á reyndar tíu prósent í Okada Suisan, keypti fimm prósenta hlut fyrir þremur árum og aftur fimm prósent á síðasta ári.

Hiroshi Yamazaki frá Maruha Nichiro segir að fyrirtækið reki um tuttugu loðnuvinnslur og þar starfi um þrjú þúsund manns. „Ef engin loðna kemur í ár þá mun þetta fólk verða fyrir tjóni, og í versta falli missa vinnuna.“

Hann segir Bandaríkin kaupa um 80 prósent af framleiðslunni en frá Íslandi kaupi fyrirtækið ekki bara loðnu og loðnuhrogn heldur einnig karfa, grálúðu, makríl og síld.

Undanfarin ár hefur fyrirtækið keypt tíu til tólf þúsund tonn af loðnu frá Íslandi, en sjö til níu þúsund samtals að auki frá Noregi og Kanada. Verulegur samdráttur varð á síðasta ári þegar fyrirtækið keypti nærri 6 þúsund tonn frá Íslandi en rúm 9 þúsund tonn samtals frá Noregi og Kanada.

Hvað loðnuhrognin varðar sérstaklega þá eru þau nánast eingöngu keypt frá Íslandi, en svolítið magn þó frá Noregi líka. Hlutur Noregs hækkaði nokkuð á síðasta ári þegar loðnan brást.

Síldarhrogn á hliðarlínunni

Hann segir markaðinn fyrir loðnuhrogn áður hafa verið bundinn að mestu við Japan, en hróður þeirra hafi borist víðar á síðustu árum og markaðurinn stækkað. Nú kaupa menn íslensk loðnuhrogn af Japönum einnig í Rússlandi og Austur-Evrópu, Kóreu, Kína, Bandaríkjunum, Kanada og víðar.

Hann segir ljóst að fáist engin loðnuhrogn muni markaðurinn snúa sér að síldarhrognum, eins og gerðist í nokkrum mæli strax á síðusta ári.

Síldarhrogn eru framleidd í Danmörku, Þýskalandi, Noregi, Hjaltlandseyjum og Noregi. Framleiðslan nam um 5 þúsund tonnum á síðasta ári og má búast við að hún aukist til að koma til móts við loðnubrestinn.

Hann greindi einnig frá því að í Noregi ætli menn að framleiða hrogn úr norsk-íslensku vorgotssíldinni strax núna í febrúar og mars.

Hrafn Sævaldsson, nýsköpunar- og þróunarstjóri Þekkingarsetursins, kynnti erindin og vakti sérstaka athygli á því að komið hafi verið með íslenska loðnu frá Japan svo hægt væri að hafa hana til sýnis á fundinum. Hér á landi séu hvergi nein loðna fáanleg.

Loðnuleitarleiðangur Hafrannsóknastofnunar hófst um miðjan janúar og var siglt austur og norður með landi en lítil loðna fannst, ekki nógu mikið til að gefa út kvóta fyrir vertíð ársins. Í næstu viku er stefnt á framhaldsleit en allt óvíst um útkomuna.