miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafa tvöfaldað veltuna árlega

Guðsteinn Bjarnason
11. apríl 2020 kl. 09:00

Fólk að störfum í vinnsluhúsi Fisherman á Suðureyri. MYND/Fisherman

Fisherman opnaði í aprílbyrjun nýja sölu- og dreifingarmiðstöð við Fiskislóð í Reykjavík, heildsölu með fisk. Einnig var fyrirtækið að ljúka við kaup á reykhúsi í Hafnarfirði og horfir nú til fiskeldis fyrir vestan.

Fisherman er tuttugu ára gamalt fyrirtæki sem byrjaði sem ferðaþjónustufyrirtæki á Suðureyri við Súgandafjörð, og þróaðist hratt yfir í að vera ferðaþjónustufyrirtæki tengt fiski. Í upphafi var þetta bara áhugamál um að gera upp gamalt hús sem keypt var fyrir 50.000- krónur.

„Þetta er búið að vera ævintýri frá upphafi,” segir Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman, sem stofnaði það ásamt fjölskyldu sinni og hefur stýrt starfseminni frá upphafi.

„Við höfum oftast tvöfaldað veltuna á hverju ári,” segir Elías. „Það sem hefur verið að plaga okkur mest frá byrjun eru vaxtarverkir. Það hefur verið full vinna fyrir marga að fylgja því eftir og halda utan um það.”

Allt stefndi í að yfirstandandi ár yrði engin undantekning hvað það varðar, nema hvað kórónuveiran gæti sett strik í reikninginn. Hvernig svo sem það fer þá hefur verið rífandi gangur í fyrirtækinu alla tíð.

„Það er vöxtur hjá okkur þrátt fyrir sérstaka tíma. Það eru alltaf tækifæri í öllum kreppum og það er mikilvægt fyrir alla stjórnendur að vera stöðugt á tánum til að bregðast við áföllum því áföll koma alltaf í rekstri, bara mis mikil áföll.“

Byrjaði smátt

„Þetta byrjaði með gistingu og sjávarréttaveitingastað, síðan byrjuðum við að selja sjóstangveiðiferðir,” segir Elías og tekur að rekja sögu fyrirtækisins í stuttu máli. „Við hættum með veiðina og seljum það verkefni frá okkur í síðustu kreppu. Förum þá inn í skemmtiferðaskipabransann að selja upplifunarferðir tengdar fiski hingað inn í þorpið.”

Á sumrin setur straumur ferðafólks til Suðureyrar svip sinn á þorpið.

„Þessir gestir hafa gaman af að koma í lítið sjávarþorp. Við erum með sex fimmtíu manna rútur sem sækja fólk til Ísafjarðar og þessi skip sem koma á Ísafjörð eru að skila þúsundum gesta til okkar á hverju sumri. Þeir fara inn í fiskvinnsluna og sjá hvernig er að vinna með fiskinn. Þeir fá líka að smakka fiskinn sem við erum að elda.”

Gestirnir koma við í vinnslunni þar sem allir fá að smakka heita fiskibollu með tartarsósu. Þeir heimsækja einnig harðfiskhjall þar sem allir fá að smakka harðfisk, og svo eru þeim sagðar sögur úr þorpinu.

„Við heimsækjum vínbónda þegar við erum í Evrópu en Evrópubúinn vill sjá okkar atvinnumenningu. Ísland hefur alltaf verið þekkt sem fiskveiðiþjóð en ekki bankaþjóð,“ segir Elías.

„Þeim finnst þetta virkilega gaman. Svo í lokin erum við með fiskiskóla og þar er öllum kennt að búa til plokkfisk, sem er það sama og við erum að selja í verslunum þannig að uppskriftin er ekki leyndarmál. Það koma allir hingað til að læra hvernig við gerum plokkfisk.”

Vörumerkið hannað

„Næst gerist það að þessi hópur gesta byrjar að vilja kaupa af okkur vörur,” segir hann.

Elías var þá í MBA-námi og sá þar tækifæri til að fara í endurmörkun á vörumerki fyrirtækisins og fer í framhaldi af því að selja vörulínu sem fljótt vakti athygli.

„Eftir bara nokkra mánuði er búið að skrifa undir samning við Hagkaup um að fara með stærri vörulínu þangað inn undir þessu sama vörumerki, og þá vantaði okkur aðstöðu til að þjónusta Hagkaup.”

Um þær mundir var laust húsnæði við Hagamel í Reykjavík, þar sem ritfangaverslunin Úlfarsfell hafði verið til húsa áratugum saman.

„Okkur þótti það samt fullstórt rými og ákváðum að taka hluta þess undir fiskisjoppu. Í dag er þetta einn vinsælasti veitingastaðurinn í Reykjavík samkvæmt Tripadvisor. En svo þegar við erum búin að vera þar í nokkra mánuði kemur upp sú staða að þetta rými er orðið allt of lítið. Þá fórum við í að byggja stærra framleiðslu- og pökkunareldhús fyrir vestan.”

Eftir það fóru hlutirnir að gerast hratt.

Horft til fiskeldis

„Við náðum að komast inn á veitinga- og mötuneytisgeirann og stærsti hlutinn af því sem við erum að gera núna fer þangað inn. Við erum með um 300 viðskiptavini í dag sem eru að kaupa vörur af okkur.”

Nú í aprílbyrjun opnaði Fisherman nýja sölu- og dreifingarmiðstöð við Fiskislóð í Reykjavík, heildsölu með fisk. Einnig var fyrirtækið að ljúka við kaup á reykhúsi í Hafnarfirði til að auka vöruframboð.

„Á Suðureyri eru rætur Fisherman í ferðaþjónustu en framleiðsla á vörum er að hluta til þar en framleiðslan mun aukast verulega þar vegna nálægðar við hráefnið. Hér er gott aðgengi að línufiski sem ber af allt árið og svo er fiskeldið að eflast mest hér fyrir vestan.”

Hann segir mikil tækifæri liggja í í fiskeldinu og Fisherman sé að undirbúa þátttöku sína í því fyrir vestan.

„Við vorum sem dæmi að fá úthlutað 4,5 hektara athafnasvæði við Brimbrjótinn í Súgandafirði. Þar ætlum við og fleiri fyrirtæki sem við eigum í samstarfi við að byggja upp á næstu árum. Stefnan er að þróa sölustarfið meira inn á erlendan markað."

Elías Guðmundsson á skrifstofu sinni á Suðureyri. MYND/GB