laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafa virkjanir áhrif á hrygningu þorsks?

26. júní 2008 kl. 07:26

Vísindamenn kanna vistfræðileg tengsl ferskvatnsrennslis til sjávar og fiska

Er hugsanlegt að takmörkun á framrennsli ferskvatns til sjávar á vorin vegna virkjana í stórám hafi áhrif á hrygningarstöðvar þorsks við suðurströndina? Þetta er ein af þeim spurningum sem leitast verður við að svara í nýrri rannsókn.

Fyrir skömmu hófst rannsókn sem eflaust á eftir að vekja mikla athygli þegar niðurstöður verða kynntar. Í rannsókninni, sem er styrkt af sérverkefnasjóði sjávarútvegsráðherra, er sjónum beint að vistfræðilegum tengslum ferskvatnsrennslis til sjávar og hrygningar og klaks þorsksins.

Markmiðið er meðal annars að meta áhrif ferskvatnsflæðis á strauma, hitastig og mögulega frumframleiðni. Þessir þættir verða tengdir við hrygningu þorsksins og afdrif eggja og lirfa. Skoðuð verður næmni þessara þátta við breytilegt ferskvatnsrennsli bæði vegna náttúrulegra sveiflna og vegna mannlegra áhrifa.

Guðrún Marteinsdóttir, prófessor í fiskifræði við Háskóla Íslands, er verkefnisstjóri rannsóknarinnar en að verkefninu standa ásamt henni Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og hafefnafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, og Árni Snorrason, forstöðumaður vatnamælinga hjá Orkustofnun. 

_____________________________________-

Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum sem fylgja með Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.