sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafnarvigtarmaður dæmdur fyrir brot á reglum um vigtun sjávarafla

28. maí 2008 kl. 10:15

Snemma í maí féll dómur í héraðsdómi Austurlands í máli hafnarvigtarmanns sem kærður var fyrir brot gegn lögum um umgengni við nytjastofna sjávar, lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, og reglugerð um skráningu og vigtun sjávarafla, með því að hafa, á árinu 2007, í starfi sínu sem löggiltur vigtarmaður skráð rangt afla í fjórum löndunum. Dómurinn er fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar er frestað.

Þetta kemur fram á vef Fiskistofu.

„Ekki verður nægilega þung áhersla lögð á mikilvægi starfs hafnarvigtarmanna. Frá upphafi hefur rétt vigt verið grundvallaratriði í viðskiptum. Í vigtun sjávarafla eru gerð upp viðskipti útgerðar og vinnslu og oftast ákvörðuð laun sjómanna. Til viðbótar er svo á seinni árum stjórn fiskveiða, þá er stýrt aflamagni og þannig leitast við að hámarka afrakstur auðlindarinnar. Mælir veiðistjórnarinnar er í höndum hafnarvigtarmanna,“ segir á vef stofnunarinnar.