laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafrannsóknastofnun kanna sæbjúgu í Aðalvík

2. júní 2008 kl. 12:38

Nýlega var farinn stuttur leiðangur á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar á Hannesi Andréssyni SH, til að kanna útbreiðslu og magn sæbjúgans brimbúts (Cucumaria frondosa) á svæðinu. Niðurstöðurnar eru birtar á Hafró-vefnum.

Könnunin, sem fór fram í mars, var gerð á svæði út af Aðalvík á 23-30 m dýpi. Þéttleikinn var mikill, 0,5 kg/m2, og voru sæbjúgun að meðallengd 19 cm og möttulþyngdin 160 gr votvigt.

Veiðihæfni plógsins er óþekkt en í 15 mínútna togi veiddust 400-800 kg. Mjög lítið var um aukafla aðeins einstaka ígulker og krossfiskar.

Skipstjóri í leiðangrinum var Bergur Garðarsson og leiðangursstjóri Guðrún Þórarinsdóttir.

Töluvert hefur veiðst af brimbút sem aukaafla við hörpudiskveiðar bæði hérlendis og í Kanada og hefur yfirleitt verið skilað í sjóinn aftur þar sem talið er að dýrin drepist. Veiðar á brimbút hófust í Kanada rétt eftir aldamótin síðustu og lofa góðu þar sem þessi tegund þykir eftirsóknarverð vegna útlits og bragðs, en möttullinn er nýttur til matar.

Veiðar á brimbút, hófust á Íslandi árið 2003 og er aflinn seldur til manneldis í Kína. Við veiðarnar er notaður léttur skíðisplógur 2 m að breidd. Aðalveiðisvæðin hafa verið í sunnanverðum Breiðafirði, Faxaflóa og Aðalvík.