föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafró: 150-160 þús. tonna þorskkvóti næstu árin

5. júní 2009 kl. 12:50

Ef fylgt verður aflareglu verður þorskkvótinn á næsta fiskveiðiári 150 þúsund tonn samkvæmt stofnmati Hafrannsóknastofnunar en kvótinn nú er 160 þús. tonn. Stofnunin gerir ráð fyrir að ekki verði forsendur fyrir meira en 150-160 þúsund tonna kvóta næstu 3-4 árin að óbreyttu ástandi, að því er fram kom á blaðamannafundi nú í hádeginu.

Þetta byggist á því að lélegir árgangar eru nú í veiðistofninum. Það breytist ekki fyrr en í fyrsta lagi þegar 2008 árgangurinn kemur inn í veiðina en hann hefur mælst sterkur. Aukning á meðalþyngd þorsks eftir aldri á næstu árum gæti að vísu haft einhver áhrif, en meðalþyngdin hefur minnkað verulega á undanförnum árum.

Þorskkvótinn á síðasta fiskveiðiári var 130 þúsund tonn og í upphafi yfirstandandi fiskiveiðiárs var hann óbreyttur en var síðan aukinn um 30.000 tonn í janúar eins og kunnugt er. 

Af öðrum fiskistofnum má nefna að Hafrannsóknastofnun leggur til verulegan samdrátt í ýusveiðum. Ráðlagt er að ýsuveiðar takmarkist við 57 þús. tonn á næsta fiskveiðiári en veiðiráðgjöf fyrir þetta ár var 83 þús. tonn og kvótinn er 93 þús. tonn.

Einnig er lagður til verulegur niðurskurður í ufsaveiðum. Hafró leggur til 35 þús. tonn á næsta fiskveiðiári samanborið við veiðiráðgjöf upp á 50 þús. tonn fyrir yfirstandandi ár. Kvótinn í ár er hins vegar 65 þús. tonn.

Þá leggur stofnunin til að karfaveiði takmarkist við 40 þús. tonn sem er samhljóma veiðiráðgjöfinni fyrir yfirstandandi fiskveiðiár, en kvótinn í ár var ákveðinn 50 þús. tonn.

Nánar um veiðiráðgjöf Hafró á vef stofnunarinnar, HÉR