þriðjudagur, 22. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafró heldur sjó

10. febrúar 2011 kl. 14:00

Árni Friðriksson RE verður á sjó í 200 daga á þessu ári.

,,Við erum búnir að hagræða og spara svo mjög að það er farið að sverfa að kjarnastarfsemi okkar,” segir forstjórinn.

Þrátt fyrir samdrátt í tekjum og aukinn útgerðarkostnað ráðgerir Hafrannsóknastofnunin að halda báðum rannsóknaskipum sínum úti á þessu ári, að sögn Jóhanns Sigurjónssonar forstjóra stofnunarinnar, en á tímabili voru bollaleggingar um það hvort unnt yrði að gera bæði skipin út vegna fjárskorts.  

Samkvæmt nýbirtri áætlun verður Árni Friðriksson á sjó í um það bil 200 daga á árinu sem reyndar er 20 dögum skemur en úthaldið á síðasta ári en þá bættust við sérstakar fjárveitingar vegna viðbótarverkefna. Ráðgert er að Bjarni Sæmundsson verði á sjó í 158 daga á þessu ári sem er svipaður dagafjöldi og í fyrra. Auk þess verður Dröfn RE tekin á leigu í 90 daga til ýmissa verkefna.

,,Samdrátturinn í úthaldi rannsóknaskipanna á undanförnum árum og almennt í starfsemi okkar hefur gert það að verkum að ekki hefur verið unnt að fitja upp á nýjum rannsóknum að neinu marki,” segir Jóhann í samtali við Fiskifréttir. ,,Við erum fyrst og fremst að halda sjó í vöktun á fiskistofnum og umhverfi sjávar til þess að geta tryggt sem áreiðanlegust rannsóknagögn sem ráðgjöf okkar um nýtingu fiskistofnanna byggist síðan á. Við erum búnir að hagræða og spara svo mjög að það er farið að sverfa að kjarnastarfsemi okkar.”

 Sjá nánar um verkefni rannsóknaskipanna í nýjustu Fiskifréttum.