föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafró leggur ekki til rækjuveiðar í Skjálfanda

30. október 2013 kl. 10:44

Innfjarðarrækja Ísafjarðardjúp.

Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var undir meðallagi

Lokið er árlegri stofnmælingu Hafrannsóknastofnunar á rækju á grunnslóð vestan- og norðanlands, að því er fram kemur í frétt frá stofnuninni. Mælingin fór fram á Dröfn RE-35 á tímabilinu 23. september til 13. október. 

Könnuð voru sex svæði: Arnarfjörður, Ísafjarðardjúp, Húnaflói, Skagafjörður, Skjálfandi og Axarfjörður. Eitt helsta markmið leiðangursins var að meta stofnstærð rækju á þessum svæðum. Að auki var allur aukaafli mældur. 

Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var undir meðallagi og var svipuð og haustið 2011. Líkt og verið hefur undanfarin ár var helsta útbreiðslusvæði rækju innst í firðinum. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að leyfðar verði veiðar á 200 tonnum af rækju fiskveiðiárið 2013/2014. 

Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi mældist í meðallagi. Mest magn rækju var innst í Ísafjarðardjúpi en einnig fannst hún í töluverðu magni í útdjúpinu. Mikið var af þorski og ýsu á svæðinu en magn þorsks og ýsu hefur þó lækkað aðeins frá síðastliðnum árum. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að leyfðar verði veiðar á 900 tonnum af rækju fiskveiðiárið 2013/2014. 

Í Skjálfanda hafði stofnvísitala rækju lækkað verulega frá fyrri árum og var nálægt sögulegu lágmarki, en síðastliðin tvö ár var vísitalan um meðallag og voru rækjuveiðar heimilaðar í Skjálfanda í fyrra. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að engar rækjuveiðar verði heimilaðar í Skjálfanda að sinni.

Niðurstöður leiðangursins sýndu að rækjustofnar í Axarfirði, Húnaflóa og Skagafirði eru enn í mikilli lægð.Almennt var svipað eða minna magn af þorski og ýsu á þessum svæðum en í fyrra, fyrir utan að meira mældist af ýsu í Húnaflóa.