þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafró mun ráðleggja loðnuveiðar á vertíðinni

28. október 2010 kl. 13:04

Búið að mæla meira en 400 þúsund tonn af veiðistofni og mikið hefur fundist af ungloðnu

Nú þegar hafa mælst meira en sem nemur 400 þúsund tonnum af veiðistofni loðnu og ljóst að Hafrannsóknastofnunin mun veita ráðgjöf um aflamark fyrir komandi vertíð fljótlega eftir að loðnuleiðangri sem nú stendur yfir lýkur, að því er fram kemur í frétt frá Hafrannsóknastofnun. Sem kunnugt er var enginn kvóti gefinn út í loðnu í upphafi fiskveiðiársins vegna óvissu um ástand stofnsins. Þá hafa komið fram vísbendingar um að magn ungloðnu, sem verður uppistaða í veiðum á þarnæstu vertíð, sé mun meira en mælst hefur í mörg ár.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur stundað þessar loðnumælingar undanfarnar vikur. Leiðangrinum lýkur um eða eftir aðra helgi. Enda þótt leiðangrinum sé ekki lokið eru nú þegar komnar fram vísbendingar um að magn ungloðnu (1. árs – verður uppistaða veiða á vertíðinni 2011/2012) sé mun meira en mælst hefur í mörg ár. Þessar niðurstöður leiða líklega til þess að ráðlagður verði upphafskvóti fyrir vertíðina 2011/2012.

Í leiðangrinum hefur jafnframt orðið vart við eldri loðnu, þ.e. þá loðnu sem kemur til með að hrygna á komandi vetri. Sú loðna fannst aðallega á tiltölulega mjóu belti frá Norðvesturmiðum, allt norður fyrir Scoresbysund við austurströnd Grænlands. Sú loðna var í góðu ástandi og í meira mæli en fundist hefur undanfarin ár. Eftir er að rannsaka svæðið austan við Kolbeinseyjarhrygg, en það verður gert á komandi dögum.

,,Í ljósi þess að nú þegar hefur mælst meira en sem nemur 400 þúsund tonnum, sem aflaregla kveður á um að sé skilið eftir til hrygningar, er nú ljóst að Hafrannsóknastofnunin mun veita ráðgjöf um aflamark fyrir komandi vertíð fljótlega eftir að leiðangrinum lýkur.  

Þó þessar  niðurstöður bendi til að ástand loðnustofnsins og horfur í loðnuveiðum séu betri en verið hefur um nokkurt skeið, benda mælingarnar þó til að hrygningarstofn loðnunnar sé enn mun minni en hann var í lok síðustu aldar,“ segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun.