laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafró unnið að 120 rannsóknaverkefnum á árinu

11. maí 2016 kl. 11:05

Skip Hafró, Árni Friðriksson.

Lögð áhersla á áframhaldandi kortlagningu hafbotnsins

Í ársskýrslu Hafrannsóknastofnunar er gerð grein fyrir rannsóknastarfsemi ársins en unnið var að meira en 120 rannsóknaverkefnum, stórum sem smáum, á árinu. 

Meðal verkefna sem unnið var að er kortlagning hafbotnsins, vöxtur kalþörung, ástand sjávar á Íslandsmiðum, stofnmæling botnfiska, makríll í íslenskri fiskveiðilögsögu, umhverfisvænar veiðar, kynbætur þorsks og hvalatalning. 

Auk rannsóknaverkefna er unnið að mörgum öðrum verkefnum svo sem kynningar á verkefnum Hafrannsóknastofnunar, skrif vísindagreina, þátttaka í ráðstefnum, þátttaka í alþjóðlegu samstarfi og kennsla í Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem rekinn er af Hafrannsóknastofnun.

Rekstur ársins var innan fjárheimilda en reksturinn hefur verið erfiður síðustu árin vegna niðurskurðar á fjárveitingum og minnkun sértekna. Til að halda rekstri innan heimilda hefur úthald rannsóknaskipa verið dregið mikið saman, starfsfólki fækkað og dregið úr mörgum mikilvægum verkefnum.

Á árinu var haldið upp á 50 ára afmæli Hafrannsóknastofnunar með ráðstefnu og veisluhaldi þar sem bæði var farið yfir farinn veg en ekki síður horft fram á veginn. Í hátíðarræðu sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra kom fram að ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera átaka í kortlagningu hafbotnsins næstu árin og veita fjármagni í það sérstaklega. Á árinu 2016 verður unnið að útfærslu verkefnisins og miðað við að það fari í fulla framkvæmd á árinu 2017.