mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hagnaður fyrir skatta um 47 milljarðar

10. desember 2013 kl. 09:55

Á sjó. Mynd: Einar Ásgeirsson

Hagur veiða og vinnslu svipaður árið 2012 og var árið 2011. EBITDA lækkar lítillega

Hreinn hagnaður veiða og vinnslu fyrir skatta árið 2012 nam 46,6 milljörðum króna, eða um 17,5% af veltu. Heildarskuldir sjávarútvegs voru 429 milljarðar í lok árs 2012 en eignir 535 milljarðar. Eigið fé var tæpir 106 milljarðar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Hagtíðindum um hag veiða og vinnslu sem Hagstofan hefur gefið út.

Í frétt á vef Hagstofunnar er samantekt um hag veiða og vinnslu miðað við nokkra mælikvarða, þ.e. EBITDA, hreinn hagnaður samkvæmt árgreiðsluaðferð og hreinn hagnður miðað við hefðbundna uppgjörsaðferð: „Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt (verg hlutdeild fjármagns, EBITDA) sem hlutfall af heildartekjum sjávarútvegs minnkaði milli áranna 2011 og 2012. Í fiskveiðum og -vinnslu lækkaði  hlutfallið (án milliviðskipta) úr 30,3% í 30%, lækkaði í fiskveiðum úr 26,4% árið 2011 í 25% af tekjum árið 2012 og lækkaði í fiskvinnslu úr 19,1% í 17,2%.

Hreinn hagnaður (EBT) í sjávarútvegi, samkvæmt árgreiðsluaðferð, nam 21,5% árið 2012 samanborið við 22,6% árið áður. Í fjárhæðum nam hagnaðurinn 57,2 milljörðum króna eftir að gjaldfærð hefur verið árgreiðsla að fjárhæð 22,6 milljarðar. Sé miðað við hefðbundna uppgjörsaðferð er niðurstaðan 17,5% hagnaður 2012 eða 46,6 milljarðar, samanborið við 17,1% hagnað árið 2011, enda gætti ekki beinna áhrifa af breytingum á gengi við mat á fjármagnskostnaði sé árgreiðsluaðferðin notuð. Árgreiðsla í veiðum hækkaði hinsvegar árið 2012 frá árinu áður, meðal annars vegna aukins fjölda smábáta sem var að veiðum,“ segir á vef Hagstofunnar.