mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hagnaður Vinnslustöðvarinnar 1.140 milljónir króna

4. júní 2015 kl. 16:57

Sighvatur Bjarnason, eitt skipa Vinnslustöðvarinnar. (Mynd: Alfons Finnsson).

VSV greiðir 519 milljónir í veiðigjöld á þessu fiskveiðiári en 865 milljónir á því næsta

Vinnslustöðin hf. (VSV) skilaði 7,2 milljóna evra hagnaði eftir skatta á árinu 2014, jafnvirði 1.140 milljóna króna.  Á árinu 2013 nam hagnaður félagsins 11,5 milljónum evra.

Þetta kom fram á aðalfundi VSV í Vestmannaeyjum í gær. Stjórnarformaðurinn, Guðmundur Örn Gunnarsson, sagði í skýrslu stjórnarinnar að í ljósi loðnubrests í fyrra yrði að segjast að afkoma félagsins hafi verið „vel viðunandi“.

Nýr togari er í smíðum í Kína, Breki VE, og gert ráð fyrir að hann verði afhentur vorið 2016. Þá hefur VSV keypt tvö skip af HB Granda, Ingunni AK og Faxa RE, sem nefnd verða Ísleifur VE og Kap VE. Með í kaupum fylgdu aflaheimildir í loðnu sem svarar til 0,7% af heildarkvótanum. Hlutdeild VSV í heildarkvóta loðnu er þar með komin í um 11%.

Á aðalfundinum kom ennfremur fram að hafnar eru framkvæmdir við tvo hráefnisgeyma á athafnasvæði VSV og fljótlega verður boðin út stækkun frystigeymslu félagsins á Eiði. Ný mjölgeymsla er á teikniborðinu og nýtt uppsjávarfrystihús sömuleiðis.

„Tæknilegar viðskiptahindranir“ rússneskra stjórnvalda gagnvart íslenskum fyrirtækjum hafa leitt til þess að útflutningur til Rússlands hefur í reynd stöðvast. VSV bregst við meðal því meðal annars að stækka og þétta sölunet sitt í öðrum álfum, einkum í Japan, Kína og Bandaríkjunum.

Vinnslustöðin greiðir 519 milljónir króna í veiðigjöld til ríkisins á yfirstandandi fiskveiðiári og áætlar að greiða 865 milljónir króna vegna næsta fiskveiðiárs.

Til fróðleiks er nefnt að félagið greiddi 192 milljónir króna í veiðigjöld vegna fiskveiðiársins 2011/2012. Síðan þá hafa þau margfaldast.

Sjá nánar á vef Vinnslustöðvarinnar.