miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hákon EA skilaði 2,5 milljörðum í aflaverðmæti - 20 skip fóru yfir milljarðinn

8. janúar 2009 kl. 09:51

Óhætt er að segja að árið 2008 hafi verið metár í íslenskum sjávarútvegi að því er varðar aflaverðmæti einstakra skipa. Um 20 skip fóru yfir milljarðinn í aflaverðmæti, samkvæmt athugun sem birt er í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag. Þrjú skip skiluðu 2 milljörðum eða meir. Mesta aflaverðmætinu náði Hákon EA, eða um 2,5 milljörðum króna.

Þau skip sem fóru yfir milljarðinn voru 12 frystitogarar, 5 vinnsluskip á uppsjávarveiðum og 3 önnur uppsjávarskip er veiddu fyrir vinnslu í landi.

Togarinn Brimnes RE varð hæstur frystitogara með rúma 1,4 milljarða í aflaverðmæti. Þá vekur árangur ísfisktogarans Sólbaks EA (ex. Kaldbakur EA) athygli en aflaverðmæti hans nam um 920 milljónum.

Helstu tíðindi ársins er gríðarlega hátt aflaverðmæti vinnsluskipa á uppsjávarveiðum. Hákon EA skilaði nánar tiltekið 2.470 milljóna króna aflaverðmæti og aflinn var 46.900 tonn. Vilhelm Þorsteinsson EA kemur þar á eftir með 2.307 milljónir (58.500 tonn), Guðmundur VE er í þriðja sæti með slétta 2 milljarða (34.700 tonn), Huginn VE var með 1.553 milljónir króna (35.340 tonn) og Aðalsteinn Jónsson SU var með 1.430 milljónir (32.000 tonn). Þau þrjú uppsjávarskip önnur sem fóru yfir milljarðinn eru Börkur NS með 1.291 milljón króna, Margrét EA með 1.202 milljónir og Ingunn AK með 1.059 milljónir.

Skip sjö útgerða, sem eru með mesta aflaverðmæti á nýliðnu ári, fiskuðu samtals fyrir tæpa 36 milljarða. HB Grandi ber höfuð og herðar yfir aðrar útgerðir en aflaverðmæti skipa félagsins var rétt rúmir 10 milljarðar króna.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.