þriðjudagur, 2. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Halda ótrauð áfram að flytja ferskan fisk

Svavar Hávarðsson
12. mars 2020 kl. 11:15

Boeing 757-200 vél í eigu Icelandair Cargo.

Ferðabann bandarískra stjórnvalda frá Evrópu hefur ekki áhrif á flutning á fersku sjávarfangi til Bandaríkjanna eins og staðan er í dag. Ef þarf mun Icelandair Cargo bregðast við takmörkunum á farþegaflugi með aukaflugi á fraktflugvélum.

Ferðabann bandarískra stjórnvalda frá Evrópu hefur ekki áhrif á flutning á fersku sjávarfangi til Bandaríkjanna eins og staðan er í dag, en eins og kunnugt er hefur Bandaríkjaforseti sett á 30 daga ferðbann á heimsóknir erlendra ríkisborgara frá Schengen svæðinu, þar með talið Íslandi.

„Það er opið fyrir fraktflug og við munum halda ótrauð áfram að flytja fisk til N-Ameríku þrátt fyrir takmarkanir í farþegaflugi. Ekki allir flugvellir munu loka fyrir farþegaflug og við munum leggja okkur fram við að halda áætlun þar sem við getum. Við bregðumst svo við með aukaflugi á fraktflugvélum ef þarf,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo.

Hann segir jafnframt að félagið muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda stöðuna fyrir ferskan fisk frá Íslandi á mörkuðum í N-Ameríku. 

„Nákvæmlega hvernig það verður útfært veit ég ekki akkúrat núna, en við höfum leiðir og munum nýta okkur þær. Þessi plön eru til endurskoðunar reglulega í allan dag og eins lengi og þarf,“ segir Gunnar Már.

Eftirfarandi fréttatilkynning var send út fyrr í morgun um nánari útfærslu á flugi Icelandair næstu daga.

Eins og fram hefur komið, gildir tímabundið ferðabann bandarískra stjórnvalda í 30 daga frá 14. mars nk. Icelandair er heimilt að fljúga til og frá Bandaríkjunum á þessu tímabili til ákveðinna flugvalla en takmarkanir gilda fyrir farþega, aðra en bandaríska ríkisborgara, sem dvalið hafa á Schengen svæðinu.

Allt flug hjá Icelandair verður á áætlun í dag og á morgun. Þegar ferðabannið tekur gildi á laugardag, verður flug til eftirfarandi áfangastaða Icelandair í Bandaríkjunum á áætlun: New York (JFK og EWR), Chicago, Seattle og Washington DC en ferðabann gildir þá fyrir alla sem dvalið hafa á Schengen svæðinu, nema bandaríska ríkisborgara.

Þann 14.-16. mars verður öllu flugi til Boston, Minneapolis, Denver og Orlando aflýst. Flug frá Orlando og Denver laugardaginn 14. mars verður á áætlun. Öll flug til Evrópu eru á áætlun. Ferðabannið gildir ekki um fraktflutninga.

Icelandair Cargo er alþjóðlegt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Reykjavík.  Einnig rekur fyrirtækið skrifstofu og vöruhús á Keflavíkurflugvelli. Icelandair Cargo rekur einnig dótturfyrirtækið Icelandair Logistics í Liege Belgíu.

Á heimasíðu fyrirtækisins segir að til að nú eru tvær fraktvélar í notkun hjá félaginu. Áfangastaðir í fraktflugi eru New York, Boston, Liege og East Midlands.  Að auki nýtir Icelandair Cargo víðfeðmt áætlunarflug Icelandair og í byrjun árs 2015 varð sameining við fraktdeild Flugfélag Íslands og getur því boðið upp á fraktflutninga til og frá u.þ.b. 54 áfangastöðum.