mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hálf undarlegt ástand á makrílnum

21. ágúst 2015 kl. 10:12

Lundey NS (Mynd: Guðm. St. Valdimarsson)

Lundey leitaði að makríl fyrir austan

,,Það er búið að vera hálf undarlegt ástand á makrílnum í þessari veiðiferð. Hann virðist hafa dreift sér og menn hafa leitað víða fyrir sér. Núna erum við t.d. staddir rúmlega 60 sjómílur frá landi eða á svipuðum slóðum og eitt skipið fékk ágætan afla í gærkvöldi. Við erum búnir að toga síðan í morgun og það er fyrst nú upp úr hádeginu sem við erum farnir að fá innkomu í trollið.“

Þetta sagði Albert Sveinsson skipstjóri á Lundey NS í viðtali á heiimasíðu HB Granda í gær en hann var þá að taka síðasta hol veiðiferðarinnar djúpt undan SA-landi. Aflinn fyrir holið var kominn í 380 tonn.

,,Við hófum veiðar í Litladjúpi en þar og í nágrenni við Hvalbakshallið hafði makrílveiðin verið góð að undanförnu. Svo brá hins vegar við, að þessu sinni, að skipin fundu ekki mikið af makríl og tíminn hefur því farið í að leita mjög víða. Ef farið er of grunnt er alltaf hætta á að rekast á síld, sem við viljum ekki veiða núna, og við fengum t.d. stóra og fallega norsk-íslenska síld í gærdag. Við færðum okkur því hingað út í gærkvöldi og vonandi skilar það okkur einhverjum makrílafla til viðbótar áður en við hífum,“ sagði Albert Sveinsson.