mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hanga í skrúfublöðum og skera úr

Guðjón Guðmundsson
2. febrúar 2019 kl. 08:00

Sigurður Stefánsson, kafari. Mynd/Reykjanes.is

„Oftast eru það björgunarsveitirnar sem sjá um að bjarga fólki úr sjávarháska og við erum meira í verðmætabjörgun,“ segir Sigurður Stefánsson, kafari.

Köfunarþjónusta Sigurðar ehf. hefur komið víða við á þeim rúmu 20 árum sem það hefur starfað. Sigurður Stefánsson lærði atvinnuköfun í Fort William í Skotlandi og rekur nú fyrirtækið þar sem starfa sex starfsmenn. Höfuðstöðvarnar eru í Keflavík en verkefnin vítt og breitt um landið og miðin.

„Oft á tíðum sinnum við verkefnum fyrir tryggingafélögin og fyrir kemur að við erum kallaðir út í hreinar björgunaraðgerðir. Oftast eru það björgunarsveitirnar sem sjá um að bjarga fólki úr sjávarháska og við erum meira í verðmætabjörgun,“ segir Sigurður.

Fyrirtækið annaðist verðmætabjörgun úr Jónínu Brynju frá Bolungarvík sem strandaði norðvestan við Straumnes í nóvember 2012. Jónína Brynja var nýlegur trefjabátur og var nýlega kominn í drift þegar hann strandaði. Sigurður fór með fulltrúa frá trygginarfélagi bátsins og björgunarsveitinni á Bolungarvík í verkefnið sem fólst í því að bjarga verðmætum úr skipinu en ljóst var að bátnum sjálfum yrði ekki bjargað. Þyrla frá Landhelgisgæslunni hafði áður bjargað áhöfninni og var þeim til aðstoðar að hífa búnað frá borði yfir í aðra báta. Verkefnið stóð yfir í tvo daga og voru nánast öll tæki úr brúnni heil.

Perlunni lyft úr Reykjavíkurhöfn

Annað stórt og krefjandi verkefni var að koma sanddæluskipinu Perlunni upp úr Reykjavíkurhöfn þar sem það hafði sokkið í nóvember 2015. Verkefnið stóð yfir í um tvær vikur.

„Þetta gekk eins hratt og við höfðum áætlað en þegar svona stórt verk er í gangi þá má alltaf búast við eitthvað gangi ekki fullkomlega upp.  Skipið leitaðist við að leggjast á hliðina þegar við lyftum því. Við létum það því sökkva aftur.  Í framhaldinu teiknuðum við upp skipið til þess að mæla stöðugleika þess. Og eftir að það hafði verið gert gekk verkið upp og skipið flaut að nýju. "

Perlan var að koma úr klössun úr slippnum í Reykjavík en sökk fáeinum mínútum síðar. Talið var að lokar hefðu verið opnir sem áttu að vera lokaðir  og fleiri atriði urðu til þess að það sökk.

„Við lokuðum öllum mögulegum götum, öndunum og gluggum og útbjuggum stórar lúgur sem náðu upp úr skipinu. Þar slökuðum við niður stórum dælum og höfðum um 3.800 tonna dælugetu á klukkutíma. Þannig dældum við sjó úr skipinu og loft streymdi inn í það í gegnum lúgurnar. Við í rauninni dældum skipinu upp. Þetta er þekkt aðferð og mikið notuð,“ segir Sigurður.

 Erfiðustu verkefnin úti á rúmsjó

Hann segir að verðmætabjörgunin hafi þó ekki verið meiri en svo að skipinu var fargað í brotajárn eftir að það hafði náðst á flot á ný. En nauðsynlegt var að fjarlægja það úr höfninni. 10-15 tonn af olíu voru í skipinu og tókst að koma algjörlega í veg fyrir olíuleka. Fjórir kafarar voru að störfum niðri í skipinu mestan tímann og voru þeir að allt í fimm tíma í senn.

„Við erum með búnað sem flytur loft, hljóð og mynd, heitt vatn og rafmagn fyrir ljós  til þess að vinna í allt að sex tíma í senn á grunnu vatni. Við dælum heitum sjó inn í kafarabúninginn sem heldur á okkur hita og gerir okkur kleift að vera lengi í kafi. Kuldinn er mjög  stór þáttur í köfuninni en við erum vel útbúnir,“ segir Sigurður.

Hann segir erfiðustu verkefnin úti á rúmsjó þegar verið er að skera veiðarfæri úr skipaskrúfum. „Það er sjaldan sem sjórinn er sléttur og oftast er mikil undiralda. Við þessar aðstæður er maður svolítið lítill í sér undir stóru skipi sem er á ferð og undiraldan óútreiknanleg. Oft þurfum við að hanga á skrúfublöðunum þegar skipið tekur dýfurnar og skera úr,“ segir Sigurður.