föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hann öskraði svo skipið skalf

9. júní 2015 kl. 08:00

Sigurður Ásgeir Kristinsson læknir um borð í Óðni í Reykjavíkurhöfn árið 2015, en varðskipinu hefur nú verið breytt í safn. MYND/HAG

Sigurður Ásgeir Kristinsson var læknir um borð í Óðni í Smugudeilunni.

Sigurður Ásgeir Kristinsson sinnti „Smugulæknishéraði“ um borð í varðskipinu Óðni árið 1994 þegar Smugudeilan stóð sem hæst og tugir íslenskra skipa með allt að 800 sjómenn voru að veiðum í Barentshafi. 

Sigurður rifjar upp þennan tíma í viðtali í sjómannadagsblaði Fiskifrétta. Við grípum hér niður í viðtalið:

„Fyrir brottför pakkaði ég niður alls konar dóti sem menn héldu að gæti komið að gagni og var m.a. tekið mið af því hvað var til í sjúkrabílunum og þyrlu Landhelgisgæslunnar,“ segir  Sigurður. „Maður taldi sig því vera þokkalega vel græjaðan, þangað til í Smuguna var komið og í ljós kom að fyrstu þrír sjúklingarnir voru með tannpínu. Einn af þeim var færeyskur sjómaður kallaður Jón verksmiðjukarl, því að hann sagðist sjálfur ekki vera á sjó heldur starfa í verksmiðju. Hann var með stokkbólgið tannbrot og ég sagði honum sannleikanum samkvæmt að í læknisfræðinni lærir maður ekkert um tannlækningar. Hann yrði eiginlega að fara í land. Hann þvertók fyrir það, ég yrði bara að draga úr honum tönnina.“ 

Sigurður fór þá í þær handbækur sem hann hafði meðferðis til að skoða hvernig ætti að deyfa tönnina og tannholdið, og gaf manninum síðan morfín. „Ég held að mér hafi tekist að deyfa hann allan meira eða minna nema fjárans tannbrotið sjálft. Síðan var griptöng soðin í potti til að sótthreinsa hana og ég hamaðist með henni til að ná úr honum tannbrotinu. Hann öskraði á meðan svo allt skipið skalf. Það dugði þó ekki og þá var fundinn kolryðgaður naglbítur í verkfærakassanum og hann soðinn í pottinum. En það gekk ekki heldur að ná tönninni með naglbítnum og niðurstaðan varð því sú að Jón verksmiðjukarl fór í land.“

Eftir þetta var ekki mikið kvartað undan tannpínu í Smugunni.